„Þetta á ekki að gerast í siðmenntuðu samfélagi“

Í lok september var stúlka undir lögaldri látin gista í …
Í lok september var stúlka undir lögaldri látin gista í fangaklefa. Slíkt á aldrei að gerast, segir félagsmálaráðherra. mbl.is/Sigurður Bogi

Unnið er að framtíðarlausn, svo að börn sem glíma við fíknivanda og eða geðrænan vanda séu ekki sett í fangelsi. Félagsmálaráðherra segir bráðabirgðalausn í höfn.

Nú á að leysa þennan vanda til frambúðar. Ásmundur Einar Daðason félagsmálaráðherra segir í samtali við mbl.is að nú sé búið að tryggja, þó til bráðabirgða sé, að börn undir lögaldri fari ekki í fangaklefa, heldur séu nú önnur úrræði í boði.

Bráðabirgðalausnin byggir á því að Barnaverndarstofa og heilbrigðisyfirvöld vinni sameiginlega að því að koma börnunum fyrir á Stuðlum.

17 ára stúlka var vistuð í fangaklefa á Akureyri í lok síðasta mánaðar. Félagsmálaráðuneytið ætlast til þess að það sé ekki gert. Æskilegri þykja úrræði eins og neyðarvistun hjá Stuðlum. „Þetta á ekki að gerast í siðmenntuðu samfélagi á 21. öld. Það er bara svo einfalt,“ segir Ásmundur.

Ásmundur Einar fullyrðir að nú sé búið að bregðast við. „Hvar sem þetta mun koma upp, þá eigum við að vera komin með lausn í bili. Þetta hefur verið grátt svæði þarna á milli heilbrigðisþjónustunnar og hins félagslega en nú er komin bráðabirgðalausn.“

Þá segir Ásmundur stýrihóp á milli félagsmálaráðuneytis og heilbrigðisráðuneytis vinna að varanlegri lausn í svona málum, undir forystu heilbrigðisráðherra. Hann segir samstarfið á milli ráðuneytanna hafa gengið mjög vel.

Ásmundur Einar Daðason segir lausn í farvatninu.
Ásmundur Einar Daðason segir lausn í farvatninu. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert