Handtekinn fyrir að drekka í vínbúð

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur haft ýmsum hnöppum að hneppa í …
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur haft ýmsum hnöppum að hneppa í dag. mbl.is/Eggert

Í hádeginu var tilkynnt um ölvaðan karlmann, sem gekk inn í verslun ÁTVR í miðborg Reykjavíkur, opnaði þar áfengisflösku og drakk úr henni án þess að greiða krónu fyrir.

Fram kemur í tilkynningu frá lögreglu um verkefni dagsins að maðurinn hafi verið handtekinn, enda hafi ekki verið hægt að ræða við hann sökum ástands.

Klukkan sjö mínútur yfir fjögur síðdegis hafði lögreglan svo afskipti af manni sem var á göngu í Hafnarfirði, reykjandi meinta kannabisjónu. „Auk þess fannst á honum önnur meint jóna,“ segir lögregla, en maðurinn verður kærður fyrir vörslu og meðferð ávana- og fíkniefna.

Af öðrum málum á borði lögreglu í dag má nefna að karlmaður féll af hesti í Kópavogi og var fluttur á slysadeild til skoðunar. Þá var tilkynnt um bílþjófnað í Vogahverfi í Reykjavík og sömuleiðis tilkynnt um að farið hefði verið inn í ólæsta bifreið í miðborg Reykjavíkur og þaðan stolið verðmætum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert