Hugmyndafræðin á villigötum

Ugla Stefanía segir fáfræði og fordóma gjarnan haldast í hendur.
Ugla Stefanía segir fáfræði og fordóma gjarnan haldast í hendur. Ljósmynd/Oddvar Hjartarson

„Ég hef aldrei rekist á þennan málflutning áður, en þetta kemur mér samt sem áður ekkert gríðarlega á óvart. Fólk sem gleypir við fáfræði og fordómum um eitt málefni gerir það gjarnan varðandi önnur,“ segir Ugla Stefanía Kristjönudóttir Jónsdóttir, um málflutning Heilsufrelsissamtaka Íslands um bólusetningar og trans fólk.

Samtökin deildu fyrr í dag innleggi á Facebook-síðu sinni sem vakti nokkra athygli, en þar var sagt að bólusetningar auki „áhættu á kynáttunarvanda“. Færslan féll í grýttan jarðveg og hefur verið fjarlægð, en sé rennt niður síðuna má sjá að síðuhaldarar dreifa gjarnan boðskap um að bólusetningar gegn ýmsum algengum sjúkdómum séu skaðlegar heilsu fólks.

Ugla, sem sjálf er trans manneskja og kynjafræðingur, segir við mbl.is að í þessari færslu afhjúpist á hversu miklum villigötum hugmyndafræði bæði andstæðinga bólusetninga og fólks sem er transfóbískt sé.

Skjáskot af færslunni á síðu Heilsufrelsis

„Andstæðingar bólusetninga hika ekki við að nýta sér fáfræði, ótta og fordóma gagnvart trans fólki til að vekja athygli á sínum málstað, sem er ekkert nema stórfurðulegt og mjög skaðandi.

Engin vísindaleg rök að baki

Skilaboðin sem er hér verið að senda er að það sé betra að barnið þitt muni hugsanlega deyja úr lífshættulegum sjúkdómi frekar en það verði trans. Þetta kemur svo sem ekkert á óvart, þar sem þessi hreyfing hefur ítrekað nýtt sér sömu aðferðir gagnvart fólki með einhverfu,“ segir Ugla Stefanía.

Hún segir að henni þyki nánast óþarfi að taka fram að engin vísindaleg rök séu á bakvið fullyrðingar síðuhaldara og að það sé vandræðalegt fyrir þessa hreyfingu að halda þessu fram.

„Trans fólk þjáist ekki af neinskonar vanda eða óvissu, þvert á móti er trans fólk fullvisst um hver þau eru og eini vandinn er samfélagið sem er oft á tíðum ekki tilbúið að leyfa trans fólki að vera það sjálft,“ segir Ugla Stefanía.

Á Facebook-síðunni Heilsufrelsi segir að Heilsufrelsissamtök Íslands séu samtök sem myndi samstöðu fólks sem vilji „efla grundvallarmannréttindi hvers sjálfráða einstaklings um að geta valið fyrir sig þær leiðir sem hann sjálfur kýs að nota til heilsueflingar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert