Árangur á æ fjölbreyttari sviðum

Listmeðferðarfræðingarnir Kathy Gottshall, Dimphy Fikke, Carolina Schindler og Lisa Hinz.
Listmeðferðarfræðingarnir Kathy Gottshall, Dimphy Fikke, Carolina Schindler og Lisa Hinz. mbl.is/​Hari
Listmeðferðarfræðingar hafa í áratugi hjálpað börnum og fullorðnum við að vinna úr ýmiss konar alvarlegum áföllum, erfiðleikum og streitu og rannsóknir sýna æ betur hvað sálræn meðferð í gegnum listsköpun getur hjálpað stórum og ólíkum hópum. Hérlendis hafa fjölmargir náð styrk í gegnum listmeðferð en þjónustan hefur m.a. verið veitt í gegnum spítala, skóla og stofnanir svo sem Ljósið, Stígamót og Foreldrahús og listmeðferð hefur oft verið það sálfræðilega úrræði sem ungir þolendur kynferðisofbeldis geta helst nýtt sér.

Nú um helgina komu listmeðferðarfræðingar víða að úr heiminum saman hérlendis á norrænni ráðstefnu en ráðstefnan fór fyrst fram árið 1975 að íslensku frumkvæði Sigríðar Björnsdóttur. Sérstakur gestafyrirlesari er hinn virti bandaríski listmeðferðarfræðingur Lisa Hinz sem flytur erindi ásamt landa sínum Kathy Gottshall. Auk þeirra tveggja hitti blaðamaður Sunnudagsblaðs Morgunblaðsins hollenska listmeðferðarfræðinginn Dimphy Fikke og Carlolinu Schindler sem er frá Þýskalandi en hún býr og starfar hér á landi og notar listmeðferðaraðferðir í starfi sínu með leikskólabörnum.

„Það sem ég og Kathy ræðum í okkar erindi og kynnum er svokallað ETC-módel (Expressive Therapy Continuum), en það hjálpar listmeðferðarfræðingum að velja viðeigandi listsköpunarleiðir fyrir skjólstæðinga sína og þær ótal leiðir sem hægt er að fara í efnisvali fyrir mismunandi hópa. ETC-módelið fer einnig yfir hvernig og hvers vegna listmeðferð virkar,“ segir Lisa.

Skjólstæðingahópurinn sístækkandi

„Margir halda að listmeðferð sé aðeins fyrir börn sem eiga auðveldara með að tjá sig í gegnum teikningar og fólk sem á erfitt með munnleg tjáskipti. Það er vissulega ein leiðin en hægt er að nota list til margs konar meðferða og til að aðstoða með ótal vandamál. Hún veitir útrás, eykur einbeitingu, hjálpar til við tilfinningatjáningu en líka við að ná stjórn á tilfinningum sínum. Þá hafa rannsóknir sýnt að listmeðferð þroskar ýmsa eiginleika í fari fólks, svo sem sjálfstæði, að eiga auðveldara með ákvarðanatöku og í þessu felst líka heilmikil sjálfsskoðun þar sem fólk sættist við sjálft sig og hluti sem það fyrirleit áður í eigin fari og nær að lifa betra lífi. Listmeðferð er því mun flóknari en bara að aðstoða fólk sem á erfitt með að nota orð við tjáskipti.“
Listmeðferð getur unnið gegn einkennum parkinsons-sjúkdómsins.
Listmeðferð getur unnið gegn einkennum parkinsons-sjúkdómsins. mbl.is/Ómar Óskarsson

Sem dæmi um fjölbreytt vandamál sem listmeðferðin vinnur með þá hefur Lisa Hinz náð góðum árangri með fólk sem hefur glímt við átraskanir en hún var prófesor í listmeðferð við Saint Mary-of-the-Woods háskólann og rekur nú eigin stofu og sinnir ráðgjafastörfum um víða veröld fyrir fagstéttina í heild.

„Ég var svo heppin að kynnast í námi og vinnu með listmeðferðarfræðingnum Vija Lusebrink en hún er höfundur ETC-kenningarinnar sem var fyrst kynnt á 8. áratugnum. Hún er upprunalega frá Lettlandi en fluttist til Bandaríkjanna en þar sem móðurmál hennar er ekki enska var þörf fyrir að koma kenningu hennar á ensku sem væri auðvelt að skilja. Ég og Kathy kenndum saman og ég sagði oft að það þyrfti einhver að skrifa bók um kenninguna svo að ég endaði á að gera það.“

Lisa segir að það sé ekki aðeins almenningur heldur jafnvel listmeðferðarfræðingar sem átti sig ekki á hversu víðtækt er hægt að nota listmeðferð. Nýjustu tíðindi úti í heimi eru til dæmis hvernig meðferðin getur unnið gegn einkennum parkinsons-sjúkdómsins.

„Listmeðferð á í raun árþúsundasögu, þar sem fólk notaði myndskreytingar til að losa um tilfinningar og bara það að skrifa í sand er auðvitað viss losun. En að vinna í sálfræðimeðferð, þar sem fagaðilar eru menntaðir til að taka á móti og leiðbeina skjólstæðingum áfram í gegnum listina, er fag sem á sér sögu frá um 1930-1940 í Bandaríkjunum. Í upphafi voru listmeðferðarfræðingar gjarnan listamenn sem fóru að starfa með sálfræðingum á geðsjúkrahúsum og þar varð listin tungumálið í meðferðinni. Í kringum 1967 var alþjóðlegt félag listmeðferðarfræðinga stofnað,“ segir Kathy.

Í dag er gjarnan talað um Holland sem helstu þróunarmiðstöð listmeðferðar, þar sem margar stærstu rannsóknir samtímans í fræðunum eiga sér stað. Dimphy Fikke sem lærði og starfar í Hollandi segir viðhorf yfirvalda gagnvart listmeðferð mjög gott. „Það er litið á meðferðina sem sjálfsagðan hluta heilbrigðisþjónustunnar og þannig eru listmeðferðir niðurgreiddar. Fyrir lítið land á evrópskan mælikvarða, eins og Holland er mikla vinnu að hafa fyrir listmeðferðarfræðinga,“ segir Dimphy.

Hinz segir að í Bandaríkjunum starfi listmeðferðarfræðingar víða innan heilbrigðiskerfisins, við umönnun krabbameinssjúkra, á geðdeildum, almennum sjúkrahúsum, skólum og í fangelsum.

Góður árangur í baráttu gegn átröskunum

En af hverju listmeðferð í stað hefðbundinnar sálfræðimeðferðar með orðum?

„Ef fólk er opið fyrir listmeðferð þá virðist vera að við náum oft fyrr að kjarna vandamálsins en í gegnum hefðbundna talmeðferð. Þegar þú segir sögu þá notarðu þau orð sem þú ert vön að nota, segir söguna alltaf á sama hátt. Svo hún er okkur kunnugleg og í frásögninni getum við auðveldlega byggt okkur varnir. Þegar við sköpum eitthvað með höndunum leggjum við slíkar varnir niður og við erum því opnari. Við erum því berskjaldaðri í meðferðinni svo það verður mun fyrr ljóst hvað það er sem angrar okkur,“ segir Liza.

Um leið og fyrsta myndin eða listaverkið verður til á meðferðarstofu eru fyrstu skrefin tekin í að fá botn í það sem skjólstæðingurinn þarf að fá hjálp með.

Kathy Gottshall og Lisa Hinz.
Kathy Gottshall og Lisa Hinz. Haraldur Jónasson/Hari

„Ef við tökum dæmi af skjólstæðingum sem þjást af átröskunum, en þar hefur náðst góður árangur í gegnum listmeðferð, þá eru einstaklingar með anorexíu yfirleitt mjög feimnir og til baka í tjáningu. Þeir eru feimnir við að einhver sjái í gegnum þá og vilja ekki að fólk kynnist þeirra leyndarmáli.

Í byrjun er líklegt að viðkomandi tjái sig aðeins með einföldum blýanti og teikni eitthvað smálegt og telji sig ekki geta gert meira en það. Listmeðferðarfræðingar ýta ekki á eftir því þetta þarf að gerast á eigin hraða skjólstæðingsins en við hvetjum þó varlega áfram. Þannig stækka teikningarnar smám saman að umfangi, litir bætast við og það yfirfærist á líf og átmynstur viðkomandi. Matarskammtarnir stækka smám saman að umfangi líkt og listaverkin á stofunni,“ segir Lisa.

Vandmeðfarin meðferð

Síðustu árin er það æ betur að koma í ljós að geðheilbrigðisþjónustan þarf að bjóða upp á fjölbreytt úrræði þar sem sömu úrræði henta ekki öllum.

„Það sama á við um efnin. Sumir vilja frekar vinna í leir eða við en með litum, og stundum þarf smástund til að finna hvaða efniviður hentar þeim,“ segir Kathy.

Í starfi sínu í Þýskalandi sá Caroline það margoft sem listmeðferðarfræðingur hve mikilvægt var að fagfólk sæi um listmeðferð og bendir á að hérlendis sé það ekki komið í lög að starfsheitið sé löggilt. Fólk með engan sálfræðibakgrunn geti því titlað sig listmeðferðarfræðing.

„Fólk sem er að vinna úr alvarlegri áföllum er að fara í gegnum mjög erfiðar tilfinningar og þar skiptir mikla máli hver vinnur með viðkomandi. Það getur í raun mjög margt gerst og komið upp á í meðferð þar sem unnið er úr sárri reynslu og því ákaflega mikilvægt að þar sé fagaðili með í för,“ segir Carolina.

Öflugt fyrir lífsstílssjúkdóma

Hinz starfar meðal annars á heilsustofnun vestanhafs og aðstoðar fólk með mataræði, að koma hreyfingu inn í líf sitt og fólk sem þarf að breyta lífsháttum til að ná tökum á of háu kólesteróli, sykursýki og ýmsum lífsstílssjúkdómum.

„Listmeðferðin kemur þar sterk inn þar sem fólk er beðið að sjá fyrir sér myndrænt líf sitt eins og það gæti verið sem heilsusamlegast og hvaða hindranir gætu verið á veginum og hvað það hefur til að nýta sér til að komast á betri braut. Þetta er fólk sem er undir álagi og þjáist af streitu því mjög oft er það streita sem er undirliggjandi orsök fyrir slæmum lífsháttum,“ segir Lisa.

Listmeðferðin fylgir meirihluta fólks út lífið. Fólk geymir myndirnar sínar sem áminningu um árangurinn og benda listmeðferðarfræðingarnir á að það að eiga myndirnar sé dýrmætur minnisvarði en eftir munnlega meðferð sé eitthvað áþreifanlegt af því tagi, áminning um hvað fólk vill verða og gera, ekki til.

Forsíða sunndudagsblaðs Morgunblaðsins 13. október 2018.
Forsíða sunndudagsblaðs Morgunblaðsins 13. október 2018.

„Það að geta boðið upp á listmeðferð, nýja upplifun, fara með einhverjum í þetta ferli í gegnum hendurnar á viðkomandi er einstakt. Að geta róað hugann við streitu og náð tengslum við tilfinningar sínar í sorg eða áföllum og skilja betur hvað er að gerast innra með sér er það sem listin gerir svo vel. Ég vinn á mjög breiðu svæði listmeðferðar, með ungu fólki og fullorðnum og oft með fólki sem hefur fengið einhvers konar greiningar,“ segir Dimphy Fikke.

Lisa starfaði í upphafi sem klínískur sálfræðingur og segir að þegar hún var 27 ára gömul hafi hún starfað með listmeðferðarfræðingi og orðið fyrir uppljómun.

„Það sem var svo magnað að sjá og er svolítið lykillinn í þessu öllu er að það er skjólstæðingurinn sjálfur sem kemst að niðurstöðu, við leiðum hann áfram, en í gegnum sína vinnu áttar hann sig á vandamálinu og áttar sig sjálfur á hvað þarf að gera, ég áttaði mig á því þá að ég yrði að ná mér í aðra gráðu og verða listmeðferðarfræðingur! Það gerast magnaðir hlutir á hverjum degi í listmeðferðarfræðinni og við erum alltaf að sjá nýja hluti, í rannsóknum og vinnu okkar.“

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert