Börnin sem bjarga lundanum

Lundinn Neymar sést hér búa sig undir flugferð í Heimaey.
Lundinn Neymar sést hér búa sig undir flugferð í Heimaey. Mynd/Úr myndskeiði BBC

Fréttamenn BBC heimsóttu Vestmannaeyjar nýverið til að fylgjast með hópi barna sem sinna því verðuga verkefni að koma pysjum til bjargar sem hafa villst inn í bæinn og eiga í hættu á því að drepast. 

Umfjöllun BBC ber yfirskriftina "Puffin patrol: The children saving Iceland's pufflings", sem útleggja má sem „Lundavaktin: Börnin sem koma pysjunum til bjargar“.

Lundinn hefur verið talinn í bráðri hættu.
Lundinn hefur verið talinn í bráðri hættu. mbl.is/Eggert

Fram kemur á vef BBC, að lundar teljist nú til tegundar sem er í mikilli hættu. Greint hefur verið frá því að lunda hafi fækkað ört, eins og fleiri sjófuglategundum hér við land, aðallega vegna ætisskorts í sjónum. Lundi er nú á válista Birdlife, Alþjóðasambands fuglaverndarfélaga. 

BBC bendir á, að sem geri ástandið verra sé að pysjurnar eigi það til að hætta sér inn í bæinn fyrir mistök og geti drepist verði þær t.d. fyrir bíl. Til að sporna gegn þessu hefur hópur barna, lundavaktin, tekið að sér að koma pysjunum til bjargar. 

Erpur Snær Hansen, forstöðumaður Náttúrustofu Suðurlands, sagði í samtali við Morgunblaðið í síðasta mánuði að pysjurnar hefðu aldrei verið fleiri síðan 2003, þegar pysjueftirlitið hóf starfsemi.

„Fáar pysjur hafa komist upp síðan 2003 en það hafa verið miklar sveiflur í sumar. Þetta er þriðja árið í röð sem við fáum talsvert af pysjum. Það kom mikill fjöldi nýrra varpfugla í sumar samanborið við í fyrra en í byrjun klaks drapst helmingurinn af öllum ungunum á einni viku. Þeir voru að fara mjög langt eftir fæðunni, um 130 kílómetra, og ég hugsa að óreyndari fuglarnir hafi misst undan sér,“ sagði Erpur. 

Myndskeiðið má sjá hér fyrir neðan.

 

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert