„Laugardalsvöllur, hvar er það?“

Þetta vill lögreglan ekki sjá og það er að hluta …
Þetta vill lögreglan ekki sjá og það er að hluta á ábyrgð skipuleggjenda að tryggja góða hegðun þeirra sem sækja viðburði. Ljósmynd/Lögreglan

Lögreglan sektaði 70-80 ökumenn um helgina fyrir að leggja bílum sínum ólöglega við Laugardalshöll. Varðstjóri í umferðardeild lögreglu segir að honum þyki „leiðinlegt að sekta fólk fyrir kjánaskap“.

Vegleg landbúnaðarsýning fór fram í Laugardalshöllinni um helgina og ökumenn lögðu bílum sínum uppi á grasi og gangstéttum. Á meðan voru mörg laus stæði við Laugardalsvöll.

„Það er gott veður og það fer nú ekki með fólk að labba í fimm mínútur, það er nóg af stæðum víða,“ segir Hrafn Grétarsson, varðstjóri í umferðardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Hann miðlar því til skipuleggjenda viðburða af þessari stærðargráðu að hafa gætur á þessum málum. „Það má ekki vera í okkar verkahring að leiðbeina fólki með jafneinfalda hluti, sem gætu vel verið útskýrðir á boðsmiðum, eins og í þessu tilviki,“ segir Hrafn.

„Það er ekki flókið að prenta bara myndir og segja: „Hérna og hérna eru stæði.““

Nóg af stæðum við Laugardalsvöll. Hvar er hann, spurði bóndi …
Nóg af stæðum við Laugardalsvöll. Hvar er hann, spurði bóndi á leið í Laugardalshöll. Ljósmynd/Lögreglan

Kröftum lögreglu er betur varið í önnur störf en að sitja um borgara og sekta þá fyrir brot af þessum toga, að sögn Hrafns.

„Við hefðum getað verið þarna allan liðlangan daginn að sekta. Okkur féllust bara hendur og við hættum að sekta. Ef við hefðum sett menn í það hefðum við getað sektað hátt í 400 manns.“

400 sektir upp á 10.000 eru fjórar milljónir í ríkiskassann. Gróðasjónarmið ráða þó aldrei för hjá lögreglu, leggur Hrafn áherslu á.

Á landbúnaðarsýningunni var að vonum staddur fjöldi bænda, hvaðanæva af landinu og sumir greinilega ekki staðkunnugir í Laugardalnum.

Hrafn sagði blaðamanni mbl.is frá einum bónda norðan úr Skagafirði sem spurði: „Laugardalsvöllur, hvar er það?“ þegar honum var bent á bílastæði þar við.

Af svona tilmælum má vel skilja afstöðu Hrafns, að beina til skipuleggjenda að lýsa því á boðsmiðum sínum hvar má finna bílastæði í nágrenni við tiltekinn viðburð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert