Vill kveikja stolt í hjörtum Íslendinga

James Cox við eina af myndum Ragnars Axelssonar á sýningunni …
James Cox við eina af myndum Ragnars Axelssonar á sýningunni JÖKULL í Ásmundarsal við Freyjugötu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hvaða erindi á milljónamæringur frá Kaliforníu til Íslands í október? Og hvað hefur togað hann hingað á norðurhjara veraldar ítrekað síðustu misseri, þar af þrisvar í ár? James Cox nýtur þess að ganga og hjóla um náttúru Íslands, en það er einmitt hún sem fangað hefur hug hans og hjarta af slíkum krafti að hann vill leggja sín lóð á vogarskálarnar henni til verndar.

Klæddur gallabuxum, með flíshúfu á höfði, bakpoka á öxlinni og myndavél hangandi um hálsinn kemur hann hlaupandi í rigningunni og inn í Ásmundarsal við Freyjugötu. Hann er frísklegur og frjálslegur í fasi, brosir einlæglega og byrjar fljótlega að lýsa aðdáun sinni á listaverkunum sem hanga á veggjum safnsins; ljósmyndum eftir Ragnar Axelsson. Hann er kominn alla leið frá Kaliforníu til að fagna opnun sýningarinnar Jökuls og útgáfu samnefndrar bókar eftir Ragnar, vin sinn Rax. „Einstakt,“ segir hann um myndirnar af þessum mögnuðu náttúrufyrirbærum, íslensku jöklunum, sem Rax hefur myndað í áraraðir og þekkir orðið betur en flestir aðrir.

Þetta er þó ekki eini tilgangur Íslandsheimsóknar bandaríska gleraugnasalans James Cox í þetta skiptið. Hann er hingað kominn með tíu vinum sínum til þess að fá hugmyndir. Já, það kann að hljóma undarlega að fólk ferðist yfir hálfan hnöttinn til að fá hugmyndir en þannig er það nú samt sem áður. Hugmyndirnar munu lúta að náttúruvernd hér á landi, hvernig kynda megi undir stolt Íslendinga af landinu sínu og hvernig þeir geti svo smitað ferðamenn af því, öllum til heilla.

James Cox (t.h.) ásamt Ragnari Axelssyni ljósmyndara. Þeim hefur orðið …
James Cox (t.h.) ásamt Ragnari Axelssyni ljósmyndara. Þeim hefur orðið vel til vina. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Náttúruvernd er sum sé ein helsta ástríða Cox. Og hugmyndirnar um hvernig hana megi efla og kynna koma á færibandi. „Já já, þær koma stöðugt, allt of margar,“ segir hann og kímir en fer svo þegar í stað að viðra nokkrar þeirra sem hann fékk við komuna til Íslands fyrir nokkrum dögum: Hvað með að gera stutta teiknimynd um tré sem vex í tugi, jafnvel hundruð ára, verður miðpunktur samfélags fugla og annarra dýra en er svo fellt og brennt á nokkrum mínútum? Sýna kraft eldsins, sem allir dragast að, sem er kannski tilkominn vegna allrar þessarar mögnuðu ævisögu trésins, sem er grundvallar þáttur í tilveru mannsins hér á jörð? Væri hægt að auka skilnings fólks á því hvað gerist við brennslu jarðefnaeldsneytis með þessum hætti?

Glóð kemur í augu Cox er hann ræðir hugmyndina sem er ein af óteljandi sem orðið hafa til í huga hans er kemur að náttúruvernd.

James Cox er langt frá því að vera erkitýpan af milljónamæringi. Hann er þó slíkur engu að síður. Hann er jarðbundinn og flækir ekki líf sitt að óþörfu. Sinnir fjölda góðgerðarmála um allan heim og ver frítíma sínum til útivistar. Veraldlegan auð sinn á hann meðal annars fyrrverandi tengdaföður sínum, leikaranum ástsæla Paul Newman, að þakka. Newman gaf honum forláta armbandsúr á sjöunda áratugnum sem síðar kom í ljós að var hundraða milljóna virði. Hann seldi það á uppboði á síðasta ári fyrir um tvo milljarða íslenskra króna. Ævintýraleg sagan af því hefur áður verið rakin í Morgunblaðinu.

Og nú notar hann andvirðið til að styðja við verkefni í náttúruvernd sem og í ýmsum góðgerðarmálum, aðallega í gegnum sjóð sem kenndur er við fyrrverandi kærustu hans, Nell Newman, elstu dóttur Pauls.  

„Ég hef einfaldlega orðið ástfanginn af landinu ykkar,“ segir Cox þar sem hann situr afslappaður á skrifstofu Ásmundarsalar, boðinn og búinn að ræða um tilgang komu sinnar og leyfa öðrum að gægjast inn í líf sitt og hugarheim. Allt í kring er verið að undirbúa ljósmyndasýningu Rax í sýningarsalnum; bera þangað kassa af bókinni Jökull sem hefur að geyma nærmyndir af ísnum sem við Íslendingar búum í næsta nágrenni við, þessu formi vatnsins sem hefur áhrif á veðurfarið og þar með allt okkar daglega líf, mótar landið okkar; gerir það að þeim undraheimi sem það er. Kannski sérstaklega í augum útlendinga. Því réttilega segir máltækið að gestsaugað sé glöggt. Og James Cox er einn af þeim sem fallið hefur kylliflatur yfir mættinum og dýrðinni sem við heimamenn tökum kannski oft sem sjálfsögðum hlut.

Paul Newman með úrið fræga, Rolex-armbandsúr, sem hann síðar gaf …
Paul Newman með úrið fræga, Rolex-armbandsúr, sem hann síðar gaf þáverandi tengdasyni sínum, James Cox, árið 1969.

„Ég hef gengið og hjólað um hálendið og kynnst hér alveg frábæru fólki,“ segir Cox. Áhugi hans á Íslandi hófst fyrir mörgum árum þó að hann hafi fyrst komið hingað árið 2015. Áhuginn kviknaði er hann lagði stund á nám í vistfræði og öðrum greinum umhverfisfræðinnar. „Ég vissi að loftslagið hér í norðri væri eins og nokkurs konar veðuræð, það er svo viðkvæmt, í heildarsamhenginu. Ég sá strax fegurðina hér og þar sem ég hef komið að ýmsum umhverfisverkefnum fannst mér landið frábær staður til að draga athyglina að af krafti.“

Náttúran heillaði hann strax. „Víðáttan, eldfjallalandslagið og mjúki mosinn,“ telur hann upp og brosir. En það er einnig fólkið sem hann hefur kynnst hér sem hefur snert við honum sem og menningin sem honum virðist mun yfirvegaðri en í Bandaríkjum nútímans. „Hér upplifi ég frelsi og hreinleiki náttúrunnar [...] ég drekk úr lækjum sem ég myndi ekki gera í öðrum heimshlutum. Fyrir ykkur er þetta ekkert nýtt en fyrir mig sem umhverfisverndarsinna þá finnst mér hér vera tækifæri fyrir mig til að taka þátt á því sviði.“

Cox segir að Ísland hafi verið fallegra en hann átti von á en að sér hafi orðið hugsað til fallegra staða í Bandaríkjunum sem hafa orðið fyrir miklum átroðningi fólks. Hann segir net þjóðgarða þar í landi hafa reynst vel en að vá standi nú fyrir dyrum vegna umbyltingar í hinu pólitíska landslagi. Hann segist telja að meira mætti gera hér á landi til að stýra straumi áhugasamra ferðamanna svo ákveðin svæði verði ekki fyrir of miklum ágangi og meðfylgjandi skemmdum og jafnvel eyðileggingu. „Ég vil alls ekki hljóma yfirlætislegur en ég held að það megi kannski nýta hér þau verkfæri og aðferðir sem notuð hafa verið í Bandaríkjunum til náttúruverndar. Ég er hins vegar enginn sérfræðingur og ætla ekki að segja Íslendingum hvernig þeir eigi að gera hlutina.“ Hann vilji hins vegar gjarnan benda á lausnir og leiðir til að skoða.

Nell Newman-sjóðurinn styrkir góðgerðarstarf og verkefni í náttúruvernd víða um heim. Cox er gjaldkeri sjóðsins og segist hafa lært það að ekki sé farsælt að koma inn í samfélög og segja fólki fyrir verkum. Heiðarlegt samtal og samvinna sé hins vegar ábatasöm og skili mestu. „Hér eru flestir velmenntaðir og upplýstir. Kannski er mitt hlutverk það að varpa örlitlu ljósi á hvað það er sem þið eigið og aðstoða ykkur við að sjá til fullnustu hversu dýrmætt það er og hver tækifærin eru. Og kannski að ýta undir sjálfstraust ykkar í því að opna hugann fyrir fleiri valkostum. Ég vona að ég hljómi ekki hrokafullur, það er ekki ætlun mín,“ segir Cox með áherslu.

James Cox ásamt Kjartani Long á hálendi Íslands.
James Cox ásamt Kjartani Long á hálendi Íslands.

Í heimalandinu Bandaríkjunum tekur Nell Newman-sjóðurinn þátt í mörgum verkefnum á sviði náttúruverndar. „Við styrkjum verkefni sem þurfa smá innspýtingu, fjármagn eða markaðsaðstoð, til að verða að veruleika.“ Mörg þessara verkefna snúast um lífrænan landbúnað og matvælaöryggi. Hann segir umfang styrkja stofnunarinnar ekki stórt í sniðum miðað við ýmsar aðrar á þessum vettvangi. En sjá megi árangur af starfinu.

Og nú vill hann finna áhugaverð verkefni á sviði náttúruverndar til að styrkja á Íslandi. Hann hefur aflað sér ýmissa upplýsinga en segist enn eiga eftir að rannsaka málið betur og velja samstarfsaðila.

Cox leggur mikla áherslu á mikilvægi þess að allir þeir sem að málum er snerta umhverfið koma ræði saman, geti rætt saman, í stað þess að fara í skotgrafirnar og út í öfgaaðgerðir sem stundum hafi verið gert í tengslum við slík mál í Bandaríkjunum. Þá sé mikilvægt að vanda vel til verka í skipulagi framkvæmda sem hafi áhrif á umhverfið til langs tíma. Gæta þess að allt sé uppi á borðum og að áhrifin séu ekki vanmetin eins og raunin hefur t.d. orðið í vissum tilvikum vestanhafs. Ef farið er í upplýsta umræðu um til dæmis hvernig fólk sjái framtíð Íslands fyrir sér, verði það til góðs.

Hann nefnir umræðuna um ágang ferðamanna en bendir á að hin mikla ferðamennska sé kannski verkefni frekar en vandamál. „Þetta skapar tekjur, þetta skapar góð störf og vissulega skapar þetta álag á auðlindirnar,“ segir Cox en að með góðum verkfærum megi stýra umferðinni, m.a. með því að kveikja áhuga ferðamanna á öðrum og fáfarnari landssvæðum.

 Í Bandaríkjunum hafa að undanförnu verið teknar ákvarðanir og farið fram orðræða sem ekki hefur styrkt umhverfisvernd, frekar hafa tennurnar verið dregnar úr stofnunum sem sinna umhverfismálum ef eitthvað er. Cox líkir ástandinu í pólitíkinni við leikvöll og segir að áhrifin hríslist inn í marga kima samfélagsins. Hægt verði að vinda ofan af aðgerðum ríkjandi valdhafa í umhverfismálum síðar meir. Þó að áhyggjur megi hafa af þeirri afturför sem orðið hafi á ýmsum sviðum finni hann þó fyrir vaxandi andstöðu við ráðandi öfl og jákvæðri sveiflu í viðhorfum margra. „Sumt á eflaust eftir að versna áður en það fer að batna á ný,“ segir hann. Það er hans tilfinning að margir Bandaríkjamenn einfaldlega bíði eftir því að valdatíð Donalds Trump ljúki. „Hann fer einn góðan veðurdag og þá þarf að hreinsa til.“

Cox segir ástandið sýna þörfina fyrir uppbyggilegar umræður meira en nokkru sinni. Fólk ætti að forðast skotgrafirnar sem aldrei fyrr. Hann tekur loftslagsbreytingar sem dæmi. „Við þurfum að sætta okkur við að þær eru af mannavöldum, þannig er það bara, en við verðum að bregðast hratt við til að bæta fyrir það.“

Áður var hann upptekinn af því að koma hinum fáu efasemdamönnum sem eftir eru í skilning um þetta en að nú telji hann aðrar leið vænlegri til að ná til þeirra. „Ég er markaðsmaður. Við gætum nálgast [efasemdarmenn] út frá hagnaðarsjónarmiðum, því það er verið að fara í umhverfisvænni átt á ýmsum sviðum og þar er peninga að finna.“

Nell Newman, dóttir Pauls Newman, og James Cox. Þau sitja …
Nell Newman, dóttir Pauls Newman, og James Cox. Þau sitja bæði í stjórn Nell Newman-stofnunarinnar sem styður við verkefni í náttúruvernd.

Þá segir hann að þó að rafbílar, svo dæmi sé tekið, séu áþreifanlegur þáttur í þeirri umbreytingu sem þegar er farin að eiga sér stað, sé ýmislegt annað sem komi til og í geti leynst tækifæri. Þannig hafi því t.d. verið haldið fram að menntun kvenna skipti sköpum í baráttunni gegn loftslagsbreytingum. Menntaðri konur eignist færri börn og síðar á lífsleiðinni. Færri börn bæti afkomu fjölskyldna. Það hafi svo bein áhrif á losun gróðurhúsalofttegunda, sérstaklega í löndum þar sem fólksfjölgun er gríðarleg í dag.  

Cox segir að ekki séu endilega allir sammála um að á þetta skuli að leggja áherslu þegar komi að loftslagsmálum en að allt þetta þurfi að ræða og þá ekki með upphrópunum.

Breytingar á loftslagi eru að mati Cox mesta ógnin sem steðjar að náttúru og dýralífi jarðar. Allt bendi til þess að áhrifin séu að koma fyrr fram en spáð hafði verið. „En hvernig förum við að því að skilja þetta, ná utan um þetta risavaxna vandamál? Ég hef ekki svarið við því en ég veit að þess verður að leita með samvinnu og skilningi. Og mér finnst að tækifærin til að hjálpa séu fyrir hendi hér á Íslandi. Sérstaklega hvað varðar ferðamennskuna. Hér eru svo óteljandi tækifæri til að upplifa eitthvað einstakt, hér finnur maður til léttis og getur tengst náttúrunni aftur. Ég er ekki hingað kominn með öll svörin sem einhver sérfræðingur. En hér finn ég að fólk er á sömu bylgjulengd.“

En hvað á hann nákvæmlega við, hvernig sér hann sína aðkomu að málum hér á landi?

„Margt hefur tekist vel til í Bandaríkjunum og ég hef borið ýmsar þær lausnir undir fólk hér og fengið góðar undirteknir. Ég er viðskipta- og markaðsmaður og það fyrsta sem kemur upp í hugann eru þessir tugir fossa á Vestfjörðum.“

Og þar komum við að Ófeigsfjarðarheiði á norðanverðum Vestfjörðum og kynnum Cox af Tómasi Guðbjartssyni hjartaskurðlækni sem hefur sem kunnugt er háð mikla baráttu fyrir verndun þeirra og hefur kynnt svæðið, sem var nær óþekkt áður, fyrir landsmönnum.

Cox hefur hug á því að leggja málefninu lið með einhverjum hætti og þar vill hann nýta þekkingu sína á kynningarmálum. Hann viðrar eina hugmynd sína að kynningu á fossunum þrjátíu við blaðamann. Segir hana ekki úthugsaða enn sem komið sé, enda hafi hún aðeins kviknað fáum klukkustundum áður. Hún miðar að hans sögn að því að upplýsa landsmenn um þau verðmæti sem felast í stórfenglegri náttúrunni og að fylla þá stolti yfir fágæti hennar og sérstöðu. Og einnig að tengja þetta við íbúa Vestfjarða, fólkið sem þar þekkir best til. „Íslendingar eiga allir rætur á einhverjum stöðum, tengjast þeim sterkum böndum, slíkt er ekki að finna alls staðar í heiminum. Og markaðsmaðurinn í mér hugsar; hvað ef ég get hjálpað fólki að sameinast um eitthvað, varpað ljósi á fegurðina sem það tekur kannski sem sjálfsögðum hlut og til að fylla það sjálfstrausti til að ákveða að varðveita svæði eins og það er?“

Cox segist hafa fjöldann allan af öðrum hugmyndum hvað þetta varðar sem hann eigi eftir að skoða betur og útfæra. Í þeim tilgangi hafi hann fengið tíu vini sína með sér til Íslands í þetta skiptið. Í hópnum er m.a. hagfræðingur og jarðfræðingar frá Bandaríkjunum sem hafi allir sérþekkingu hver á sínu sviði. Tilgangurinn er svo meðal annars að finna innlenda samstarfsaðila í náttúruvernd. „Þetta er svo svona rannsóknarferð,“ segir hann.

Við Hvalá í Árneshreppi. James Cox hefur hug á að …
Við Hvalá í Árneshreppi. James Cox hefur hug á að styðja við verkefni er tengjast náttúruvernd á Vestfjörðum. mbl.is/RAX

Vinnubrögðin eru sambærileg við það þegar hann hefur leitað samstarfsaðila í Bandaríkjunum. Aflað sé gagna, margir kostir metnir og svo sá rétti fundinn. Þá sé einnig ætlunin að tengja verkefnin við bandarísk fyrirtæki sem leggi áherslu á umhverfisvitund og vernd.

Hann telur að líklega verði sjónum beint að verkefnum á Vestfjörðum. Þar komi ýmislegt til. Á svæðinu leynist tækifæri til ferðamennsku og útivistar sem ekki séu á allra vitorði. „Við gætum hvatt fólk til að fara þangað í stað þess að fara á dæmigerðari ferðamannastaði,“  segir Cox. Ein hugmyndin sé að efna til utanvegahlaups á svæðinu og fá innlenda og erlenda aðila til samstarf til þess. Tengslanet Cox er víðfeðmt og liggur um allar jarðir og hann virðist láta fátt stoppa sig við að láta hugmyndir verða að veruleika sem öðrum kynni að þykja illframkvæmanlegar.  Það lifnar því yfir honum er hann fer að tína til það sem hann hefur látið sér detta í hug. Grunnhugmyndin er þessi: „Að láta alla vita, með samstarfi við fyrirtæki og með fjárstuðningi, að þetta sé einstakur staður. Fólk fer þá vonandi að heimsækja hann og getur gert upp við sig hver því finnst framtíð hans eiga að vera.“

Að mati Cox er náttúruvernd nærandi. „Það er þetta sem úrið gerði fyrir mig,“ segir hann. „Ég hef stundum sagt að ég hafi aldrei átt úrið, ég var aðeins gæslumaður þess. Það hafði mikinn mátt og nú ber ég mikla ábyrgð við að láta gott af öllu þessu leiða. Ég hef aldrei unnið meira. Til þess að hafa áhrif verður maður að hella sér út í hlutina. Og hingað er ég kominn til að kynnast fólki og afla upplýsinga. Og ég held að Vestfirðirnir séu svo einstakt svæði því það er afskekkt og fáir leggja leið sína þangað. Það rímar því vel við hugmyndir mínar. Þetta er svæði sem við eigum að virða og ættum sem flest að heimsækja.“

Cox bendir á að aðrar leiðir séu nú oft farnar í umhverfisverndarmálum en áður. Lögð sé meiri áhersla á efnahagslegan ávinning náttúruverndar. Mikilvægt sé að blekkingum sé ekki beitt og að athafnir mannanna séu gerðar í sem mestri sátt við samfélag og umhverfi. Hann nefnir sem dæmi starfsemi samtakanna Eco Trust sem Nell Newman-sjóðurinn styrkir. Þar sé unnið með t.d.  sjómönnum að vistvænni veiðum. Geti þeir ekki fengið lán hjá bönkum til að endurnýja veiðarfæri sín komi samtökin til skjalanna og veiti þeim lán. Þegar ekki hafi tekist að fá skógarhöggsfyrirtæki til að breyta aðferðum sínum til að vernda ár og lífríki þeirra hafi slík fyrirtæki verið keypt upp. Þau eru hins vegar ekki lögð niður heldur vinnslunni einfaldlega breytt til að ná markmiðum um náttúruvernd. Þannig er stutt við samfélögin á svæðunum og þau gerð sjálfbærari.

James Cox telur Vestfirði einstakt svæði og þar séu tækifæri …
James Cox telur Vestfirði einstakt svæði og þar séu tækifæri í ferðaþjónustu og útivist mörg. Hér sjást vötn á Ófeigsfjarðarheiði. mbl.is/Golli

„Íslendingar mega ef til vill efla sjálfstraust sitt. Í stað þess að segja [í umkvörtunartóni] að þeir búi á eyju sem er köld og snjóþung þá ættu þeir að segja með stolti að þeir búi á eyju sem er köld og snjóþung. Og að þeir ætli að grípa tækifærin sem felast í ferðamennskunni og einbeita sér betur að því að skipuleggja hana. Til dæmis með því að fá fleiri til að heimsækja Vestfirði og hafa þannig hagræn áhrif þar. Ganga úr skugga um að vegirnir séu öruggir og að uppbygging verði fyrir hendi. Það mun að mínu viti hafa meiri efnahagsleg áhrif en bygging virkjana og iðnaðar, sem við þurfum engu að síður. En hugum að því hvar slíku er komið fyrir, hver þörfin er og í hvað rafmagnið er notað. Um þetta veit ég ekki nóg í dag og þess vegna kom ég með kláru vini mína með mér,“ segir hann hlæjandi. „Ég hef ekki öll svörin en ég er góður í því að finna fólk sem getur lagt sitthvað til málanna og að tengja það saman. Mér finnst þetta spennandi hugmyndir svo við skulum endilega láta á þær reyna.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert