Þúsund eru án lífeyris

Tryggingastofnun ráðgerir að flytja 15. desember í Hlíðasmára 11 í …
Tryggingastofnun ráðgerir að flytja 15. desember í Hlíðasmára 11 í Kópavogi. mbl/Arnþór Birkisson

Nú eru 19.162 einstaklingar með 75% örorkumat og eiga því að öðru jöfnu rétt á örorkulífeyri. Hefur þeim fjölgað um 4.300 á tíu árum sem er um 29% aukning. Hins vegar fá aðeins 18.009 einstaklingar lífeyri og hluti hópsins fær skertan lífeyri vegna annarra tekna.

Því eru rúmlega 1.000 öryrkjar í landinu sem ekki þiggja lífeyri. Kemur þetta fram í talnagögnum frá Tryggingastofnun ríkisins.

Ekki hefur verið greint hvað liggur að baki því að fólk sækir um og fær metna örorku upp á 75% án þess að eiga rétt á lífeyri. Þó liggur fyrir að ýmsir hvatar kunna að vera fyrir því. Öryrkjar geta í einhverjum tilvikum fengið greiðslur sem tengjast börnum og fríðindi annars staðar í samfélaginu. Eitt er að Tryggingastofnun veitir nú fólki sem metið er öryrkjar afturvirkar greiðslur í tvö ár, eftir að umboðsmaður Alþingis birti álit þess efnis, og það getur þýtt að viðkomandi fær verulegar greiðslur í upphafi.

Fjölgun hefur orðið á nýgengi örorku, eins og fram hefur komið í blaðinu. Samkvæmt upplýsingum Tryggingastofnunar eru stoðkerfissjúkdómar og geðraskanir algengustu ástæður 75% örorku. Á síðasta ári voru geðraskanir ástæðan fyrir örorkumati 495 einstaklinga og stoðkerfissjúkdómar í 389 tilfella en 734 tilfelli voru af öðrum ástæðum.

Þurfa fleiri úrræði

Sigríður Lillý Baldursdóttir, forstjóri Tryggingastofnunar, segir að stofnunin reyni að beina ungum umsækjendum um örorkulífeyri í endurhæfingu og á endurhæfingarlífeyri. Það sé ekki alltaf hægt. Nefnir hún að alltaf komi dáltítið af umsóknum frá ungu fólki um örorkumat þar sem læknar skrifi upp á örorku og endurhæfingaraðilar staðfesti að endurhæfing sé fullreynd. Í þeim tilvikum hafi Tryggingastofnun fá úrræði. „Við erum ekki sátt við það. Geðfötluðum fjölgar mikið. Þar þurfum við að finna fleiri úrræði. Einhver úrræði eru til en okkur hefur ekki tekist að tengja þau þannig að þau nýtist einstaklingum vel. Það eru ákveðin vonbrigði,“ segir Sigríður Lillý. Tekur hún fram að unnið sé að því að velferðarráðuneytinu að gera stofnuninni kleift að grípa til slíkra úrræða.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert