Varðskipið Óðinn í slipp

Varðskipið Óðinn.
Varðskipið Óðinn.

Varðskipið Óðinn verður tekið í slipp í Reykjavíkurhöfn í dag. Óðinn, sem er einn stærsti og merkilegasti safngripur Íslands, er varðveittur á Grandanum sem hluti af Sjóminjasafninu í Reykjavík, nánar tiltekið við Óðinsbryggju í Vesturbugt, samkvæmt fréttatilkynningu.

„Eins og gefur að skilja er varðveisla og viðhald skips af þessari stærðargráðu ekki einfalt verk, en Óðinn býr svo vel að eiga fjölda hollvina sem koma þar að málum. Þó svo að Óðinn hafi ekki siglt um úfin höf síðustu árin, þarf að sinna reglubundnu viðhaldi og núna er komið að nauðsynlegri slipptöku skipsins.

Óðinn verður tekinn í slipp í Reykjavíkurhöfn og verður það án efa áhrifarík og ánægjuleg sjón. Þar verður hann botnhreinsaður, málaður og kannað með öxuldrátt, en ráðgert er að framkvæmdin taki um tvær vikur. Að því loknu verður Óðni lagt aftur við bryggju hjá Sjóminjasafninu og verður öllum almenningi aðgengilegur og til sýnis, eins og verið hefur síðustu 10 ár,“ segir í tilkynningu.

Varðskipið Óðinn sem var smíðað í Álaborg í Danmörku árið 1959 kom til landsins 27. janúar 1960. Árið 2008 afsalaði ríkissjóður Óðni til Hollvinasamtaka Óðins og í kjölfarið tók Sjóminjasafnið formlega við varðveislu skipsins í samvinnu við Hollvinasamtökin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert