Veittu stolinni skútu eftirför

INOOK komin í höfn.
INOOK komin í höfn. Morgunblaðið/Alfons

Þjófnaðurinn á skútunni Inook úr Ísafjarðarhöfn aðfaranótt sunnudags var vel skipulagður og krafðist aðkomu eins eða fleiri manna sem kunnu til verka. Þetta segir heimildarmaður Morgunblaðsins á Ísafirði.

Fjölmiðlar greindu frá því í gærkvöldi að varðskipið Þór og þyrla Landhelgisgæslu Íslands hefðu veitt skútunni eftirför í gær eftir að lögreglan á Vestfjörðum óskaði eftir aðstoð við að finna skútuna.

Samkvæmt upplýsingum frá Gæslunni var þyrlan send í loftið um tvöleytið í gær eftir að beiðni um aðstoð barst. Þyrlan fann skútuna fljótlega og í kjölfarið var varðskipið Þór sent á vettvang til að sigla í veg fyrir hana og fylgja henni til hafnar á Rifi á Snæfellsnesi. Þyrlan var svo send aftur til Reykjavíkur til að ná í tvo sérsveitarmenn ríkislögreglustjóra og tvo frá séraðgerðasviði Landhelgisgæslunnar og flytja þá á Rif til að taka á móti skútunni.

Skipstjóri skútunnar var handtekinn við komuna þangað um klukkan níu í gærkvöldi. Hann var einn á ferð, að sögn lögreglunnar á Vestfjörðum, sem vill ekki gefa upp þjóðerni mannsins. Verður hann yfirheyrður í dag.

Málið er sagt vera mjög dularfullt, meðal annars vegna þess að mjög erfitt var að framkvæma þjófnaðinn og eru aðrar skútur sagðar hafa legið betur við höggi í höfninni á Ísafirði. Auk þess vekur tímasetning þjófnaðarins spurningar en einungis eru nokkrir dagar síðan eigandi skútunnar var staddur á Ísafirði. Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins hafði skútunni verið siglt til Ísafjarðar fyrr í haust og til stóð að geyma hana þar í vetur.

Aðstæðum er lýst þannig að skútan Inook hafi verið bundin við tvær aðrar skútur aftast í höfninni á Ísafirði og fyrir framan þær hafi þrjár aðrar skútur legið bundnar saman. Til að koma Inook úr höfninni þurfti því að leysa skúturnar fyrir framan og færa að minnsta kosti eina þeirra frá. Gerandinn skilaði svo skútunni á sinn stað og batt skúturnar aftur saman nákvæmlega eins og eigendur þeirra gengu frá þeim. Það er því ekki talin tilviljun að Inook hafi verið stolið og gefur til kynna að þjófnaðurinn hafi verið vel undirbúinn.

„Þegar ég kem um borð í bátinn hjá mér lítur allt eðlilega út og allt var bundið eins og ég gekk frá því. Það er eins og bátnum [Inook] hafi verið lyft upp og farið með hann í burtu. Þetta er hið undarlegasta mál,“ segir Halldór Sveinbjörnsson, sem á eina af skútunum sem voru nálægt Inook, í samtali við Morgunblaðið.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert