Vilja rannsókn á umframkostnaði á Hlemmi

Hlemmur mathöll.
Hlemmur mathöll. mbl.is/Árni Sæberg

Borgarfulltrúar Miðflokksins munu leggja fram tillögu á borgarstjórnarfundi Reykjavíkur á morgun um að fá óháðan aðila til að rannsaka hvers vegna kostnaður við framkvæmdir við endurbætur á Hlemmi mathöll hafi farið langt fram úr kostnaðaráætlun.

Frumkostnaður við verkið var upp á 107 milljónir króna, en heildarkostnaðurinn fór upp í 308 milljónir króna.

Í tillögunni er lagt til að athugað verði hverjir höfðu umsjón með verkefninu, gáfu heimildir fyrir framúrkeyrslu, hvort verkefnið hafi verið boðið út og hvaða verktakar unnu að verkinu. Þá er jafnframt lagt til að rannsakað verði hvort leigusamningar og leiguverð séu í samræmi við markaðsverð.

Kemur þessi tillaga í kjölfar mikilla umræðna undanfarið um mikla framúrkeyrslu við endurgerð braggans í Nauthólsvík. Upphaflega var áætlað að hann myndi kosta 146-158 milljónir, en kostnaður er nú kominn í 415 milljónir og er viðbygging langt frá því að vera tilbúin. Samþykkti borgarstjórn að fela innri endurskoðun borgarinnar að rannsaka málið, en fulltrúar minnihlutans hafa farið fram á að óháður aðili rannsaki málið í stað innri endurskoðunar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert