Ákvörðun um hvort lögbann verði sett á vefsíðuna tekjur.is verður ekki tekin í dag. Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu segir að fara þurfi yfir mikinn bunka af skjölum í málinu og að engin ákvörðun liggi fyrir.
Ingvar Smári Birgisson, lögfræðingur og formaður Sambands ungra sjálfstæðismanna, krafðist í gær lögbanns á tekjur.is. Á vefnum er hægt er að fletta upp tekjum og skattaupplýsingum allra Íslendinga 18 ára og eldri, gegn greiðslu áskriftargjalds, en Viskubrunnur ehf. er rekstaraðili síðunnar.
Þórólfur Halldórsson, sýslumaður á höfuðborgarsvæðinu, segir að málið sé ekki sérstakt forgangsmál. Hins vegar sé eðli málsins samkvæmt reynt að taka lögbannsmál fyrir eins hratt og auðið er.