Aldrei verið sótt um leyfi fyrir stækkun hótelsins

Ekki verður hægt að halda áfram vinnu við stækkun hótelsins …
Ekki verður hægt að halda áfram vinnu við stækkun hótelsins fyrr en byggingarleyfi fæst. mbl.is/​Hari

Ekki er til staðar byggingarleyfi og enn hefur ekki verið sótt um slíkt leyfi fyrir byggingaframkvæmdum vegna stækkunar City Park Hótel við Ármúla 5 í Reykjavík. Þrátt fyrir það hefur vinna staðið yfir við stækkunina um tíma, en verið er að bæta við 27 herbergjum. Fyrir voru herbergin 57, en ljúka átti framkvæmdum fyrir jól.

Starfsmenn frá byggingarfulltrúa í Reykjavík fóru á vettvang í gær til að stöðva framkvæmdir, en Vinnueftirlitið hafði þá bannað alla vinnu frá og með 12. október, þar sem veigamikil öryggisatriði voru í ólagi og öryggisstjórnunarkerfi á verkstað ófullnægjandi.

Merki um að starfsmenn sofi á vinnustaðnum

Í skýrslu Vinnueftirlitsins segir meðal annars að ástand rafmagnsmála á verkstað sé mjög hættulegt. Rafmagnssnúrur séu hangandi niður úr loftum og ótryggir rafmagnskaplar milli hæða og í rafmagnstöflu. Þá séu óvarin op í gólfi, fallvarnir ekki til staðar og starfsmenn hvorki í öryggisskóm né með hjálma við vinnu. Í skýrslunni kemur einnig fram að byggingarleyfi sé ekki til staðar og að merki séu um að starfsmenn sofi og hafist við á vinnustaðnum.

Árni Valur Sólonsson, eigandi City Park Hótel, viðurkenndi í samtali við Morgunblaðið í gær að hann hefði greinilega ekki staðið rétt að öllum aðbúnaði. „Þetta eru ýmis smáatriði sem ég þarf að kippa í liðinn,“ sagði Árni Valur.

Þau atriði sem gerðar eru athugasemdir við virðast þó ekki vera nein smáatriði, líkt og hann heldur fram. Að byggingarleyfi sé til staðar er til að mynda grundvallaratriði þegar kemur að ráðast í framkvæmdir. Það fékkst staðfest hjá embætti byggingarfulltrúa Reykjavíkur að aldrei hefur verið sótt um leyfi fyrir stækkun hótelsins í Ármúla.

Fær ekki að halda áfram fyrr en leyfið er komið

„Það er númer eitt, tvö og þrjú að hafa byggingarleyfi til að geta hafið framkvæmd,“ segir Særún Jónasdóttir, skrifstofufulltrúi hjá embætti byggingarfulltrúa. „Þetta kemst yfirleitt upp þegar nágrannar fara að kvarta. Þá er þetta skoðað. Það er því enginn hagur að því að sækja ekki um.“ Að hennar sögn hefur byggingarfulltrúi ekki mannafla í að skoða allar framkvæmdir en þegar ábendingar koma sé brugðist skjótt við, líkt og í umræddu tilfelli.

Særún segist ekki geta svarað því hvort það geti gleymst að sækja um leyfi eða hvort það sé ekki gert af ásetningi. Það sé eflaust allur gangur á því. Það vakni þó stundum grunur um að menn kjósi það að sækja ekki um leyfi, enda þurfi að uppfylla ákveðin skilyrði til að leyfið fáist. „Þá þarf að fá byggingarstjóra, meistara og teikningar og greiða útreiknuð gjöld. Það eru frumskilyrðin fyrir því að byrja á framkvæmdum,“ útskýrir hún.

Til að hægt sé að hefja framkvæmdir aftur við stækkun hótelsins þarf að sækja um leyfi og það að fást, en jafnframt gera þær úrbætur sem Vinnueftirlitið gerir kröfu um. „Hann fær ekkert að halda áfram fyrr en leyfið er komið út,“ segir Særún, en byggingarfulltrúi mun hafa eftirlit með því.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert