Fjórum milljörðum dýrari leið

Teigsskógur í Reykhólasveit.
Teigsskógur í Reykhólasveit. mbl.is/Sigurður Bogi

Hin svokallaða R-leið um Reykjanes og utanverðan Þorskafjörð er töluvert dýrari en Þ-H-leiðin sem Vegagerðin mælir með.

Þetta er niðurstaða skýrslu Vegagerðarinnar, að því er segir í tilkynningu, þar sem greint er frá frumathugun á valkostum vegar um Reykjanes á þeim kafla sem er eftir á sunnanverðum Vestfjörðum um Gufudalssveit.

Bornir eru saman þrír kostir í skýrslunni og er einn þeirra svipaður svokallaðri R-leið sem norska rágjafafyrirtækið Multiconsult kynnti fyrir sveitarstjórn Reykhólahrepps í vor.

Niðurstaðan er sú að leiðin sem Vegagerðin skoðaði og er nær sama leið og R-leiðin, en er nefnd leið A3 til aðgreiningar frá leið Multiconsult, er nærri fjórum milljörðum króna dýrari lausn en leið Þ-H (um Teigsskóg). Leið A3 er nokkrum kílómetrum lengri, með minna umferðaröryggi og gæti tafið framkvæmdir um 2-3 ár, sé horft framhjá hugsanlegum kærumálum á báðum leiðum.

Afstaða Vegagerðarinnar eftir að hafa unnið skýrsluna er sú að leið Þ-H sé besta leiðin til bættra vegasamganga á sunnanverðum Vestfjörðum. Að því er segir í tilkynningunni eru rökin fyrir því helst eftirfarandi í samanburði við leið A3:

  • Umferðaröryggi er að öllum líkindum minna á leið A3.
  • Leið A3 er töluvert lengri en leið Þ-H eða 4,7 km.
  • Kostnaður við leið A3 er verulega meiri en við leið Þ-H sem nemur tæpum 4 milljörðum kr.
  • Ljóst er að umhverfisáhrif eru töluverð á leið A3. Kanna þarf matsskyldu og líklegt að gerð verði krafa um umhverfismat.
  • Efnisþörf fyrir leið A3 er meiri og opna þarf fleiri námur.
  • Verði farin leið A3 mun það líklega tefja framkvæmdir um tvö til þrjú ár.

Skýrsluna og teikningar má finna á vef Vegagerðarinnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert