Innleiðing þjónustustefnu samþykkt

Ráðhús Reykjavíkur.
Ráðhús Reykjavíkur. mbl.is/Ómar

Rafvædd, bætt og einfölduð þjónusta er markmið nýrrar þjónustustefnu sem borgarstjórn samþykkti að innleiða á fundi sínum í dag.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Reykjavíkurborg.

Þar segir að tillaga meirihluta borgarstjórnar leggi sérstaka áherslu á að notandinn sé í forgangi í allri nálgun á þjónustu hjá borginni. Til þess að ná fram því markmiði verður unnið með rafrænar lausnir, fækkun skrefa og einföldun ferla í allri þjónustu borgarinnar

„Rafrænar lausnir sem einfalda umsóknarferli í skipulags- og byggingarmálum, skóla- og frístundamálum, velferðarmálum og öðrum þáttum sem koma beint við íbúa og atvinnulíf eru meðal þess sem til stendur að innleiða. Þetta þýðir að íbúar og fyrirtæki geta nýtt sér vefinn til að sækja alla mikilvæga þjónustu. Vefur Reykjavíkurborgar verður hennar helsta þjónustugátt með einföldu aðgengi að upplýsingum og þjónustu,“ segir í tilkynningunni.

Fram kemur að næsta skref sé að stofna stýrihóp sem verður skipaður formanni borgarráðs og formanni mannréttinda- og lýðræðisráðs auk formanna fagráða til að styðja við verkefnið og móta nánar forgangsröðun verkefna.

„Reykjavíkurborg, höfuðborg landsins, á að vera fremst í flokki þegar kemur að góðri þjónustu við íbúa og atvinnulíf. Við eigum að vera leiðandi í þróun rafrænna lausna og skýrum þjónustuviðmiðum. Við eigum að mæta þörfum borgarbúa, fækka skrefum og stytta bið,“ segir Lóa Þórhallsdóttir, formaður borgarráðs, í tilkynningunni.

„Tillagan sem samþykkt var í borgarstjórn í dag er stórt skref í átt að þjónustuborginni Reykjavík. Þjónustuborginni þar sem þarfir og væntingar íbúa eru settar í forgang. Ég er þakklát fyrir að fá að fylgja þessari mikilvægu innleiðingu eftir og hlakka til þeirrar vinnu sem framundan er.“

Þjónustustefna Reykjavíkurborgar var samþykkt í borgarstjórn árið 2016 og samhliða vinnu við hana var rafræn þjónustumiðstöð stofnuð. Henni er ætlað að þróa og breyta framlínuþjónustu borgarinnar þannig að rafræn sjálfsafgreiðsla verði alltaf fyrsti valkostur borgarbúa þar sem hægt er að koma því við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert