Löng bið í París vegna vélarbilunar

Flugvél WOW air.
Flugvél WOW air.

Farþegar WOW air hafa þurft að bíða í um þrjár og hálfa klukkustund á Charles de Gaulle-flugvellinum í París eftir að vélarbilun kom upp í vél flugfélagsins.

Flugvélin átti að leggja af stað til Keflavíkur klukkan 16:30 að íslenskum tíma. Farþegarnir voru komnir um borð í vélina þegar greint var frá seinkuninni og þurftu þeir því að fara aftur inn í flugstöðvarbygginguna.

Að sögn Svanhvítar Friðriksdóttur, upplýsingafulltrúa WOW air, kom smávægileg bilun upp í vélinni og hafa farþegar verið upplýstir um stöðu mála með smáskilaboðum og tölvupóstum.

Í einum skilaboðanna frá WOW air til farþeganna kemur fram að stefnt sé að brottför klukkan 21 í kvöld og að beðist sé afsökunar á seinkuninni, samkvæmt upplýsingum frá einum farþeganna. Sá segir einnig að vélin hafi verið dregin í burtu frá þeim stað þar sem farþegarnir gengu fyrst um borð í hana.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert