Telur að lögbannskröfu verði hafnað

Vilhjálmur H. Vilhjálmsson er lögmaður og talsmaður Viskubrunns ehf. sem …
Vilhjálmur H. Vilhjálmsson er lögmaður og talsmaður Viskubrunns ehf. sem rekur vefsíðuna tekjur.is.

„Ég tel ljóst að henni verði hafnað,“ segir Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, lögmaður tekna.is, við fyrirspurn mbl.is vegna lögbannskröfu á hendur vefsíðunni tekjur.is. Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu sagði að ákvörðun um lögbann yrði ekki tekin í dag.

Ingvar Smári Birg­is­son, lög­fræðing­ur og formaður Sam­bands ungra sjálf­stæðismanna, krafðist í gær lög­banns á tekj­ur.is. Á vefn­um er hægt er að fletta upp tekj­um og skatta­upp­lýs­ing­um allra Íslend­inga 18 ára og eldri, gegn greiðslu áskrift­ar­gjalds, en Visku­brunn­ur ehf. er rekstr­araðili síðunn­ar.

Vilhjálmur segir að lagaheimildin fyrir birtingunni sé afdráttarlaus og fordæmin fyrir birtingu sambærilegra upplýsinga mörg og aldrei hafi verið sett lögbann á þau. Hann tekur dæmi af útgáfu Tekjublaðs Frjálsrar verslunar en Persónuvernd vísaði kvörtun vegna þess frá síðasta föstudag.

„Umbjóðandi minn stendur traustum fótum lagalega séð,“ segir Vilhjálmur.

Ekki er hægt að fá upplýsingar um hversu margir hafa keypt aðgang að tekjur.is. Fyrsti mánuðurinn kostar 2.790 krónur og mánaðargjaldið eftir það er 790 krónur.

Vilhjálmur segir að umbjóðandi hans stefni að því að uppfæra gögnin þegar ný skattskrá verði gefin út. Það ráðist þó væntanlega af viðbrögðum og hvort takist að standa undir kostnaði vefsíðunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka