Tilkynnt um mun færri kynferðisbrot

Alls bárust lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu 736 tilkynningar um hegningarlagabrot í …
Alls bárust lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu 736 tilkynningar um hegningarlagabrot í september. mbl.is/​Hari

Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu bárust sjö tilkynningar um kynferðisbrot í september og hafa þær ekki verið færri á einum mánuði síðan í febrúar 2014. Tilkynningarnar voru einnig 70% færri en meðaltalið síðustu 12 mánuði. Þetta er meðal þess sem fram kemur í afbrotatölfræði lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu fyrir septembermánuð.

Alls bárust lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu 736 tilkynningar um hegningarlagabrot í september og voru þau færri en mánuðina á undan. Nytjastuldum fækkaði nokkuð í mánuðinum, en 17 tilkynningar bárust vegna slíkra brota miðað við 31 tilkynningu að meðaltalið síðastliðna 12 mánuði. Innbrotum fjölgaði hins vegar í september, en 97 tilkynningar um innbrot bárust lögreglunni, þar af um 40 innbrot á heimili. Fjölgaði innbrotum um 13% frá meðaltali innbrotatilkynninga síðustu 12 mánaða, en um 15% í innbrotum á heimili.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu skráði 162 atvik í september þar sem ökumaður var grunaður um akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna og var fjöldi brota innan útreiknaðra marka. Þó hefur brotum fjölgað um 65% það sem af er ári samanborið við meðaltal á sama tímabili síðustu þrjú ár.

Ofbeldi gagnvart lögreglu eykst

Í september voru skráð sjö tilvik þar sem lögreglumaður var beittur ofbeldi, en það sem af er ári hafa 55% fleiri slík brot verið skráð en meðaltal sama tímabils síðustu þrjú ár á undan. Í september kom ekkert tilvik um hótanir um ofbeldi gegn lögreglu upp, en það sem af er ári hefur tilfellum fjölgað um 31% miðað við síðustu þrjú ár.

Mánaðarskýrsluna má lesa í heild sinni hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert