Ekki í Framsókn og föðursystir ekki böðull

Kamilla Einarsdóttir.
Kamilla Einarsdóttir. Eggert Jóhannesson

Þegar Burt Reynolds dó uppgötvaði undirrituð að hann var ekki Tom Selleck. Þar til þá hafði ég haldið að þeir væru einn og sami maðurinn. Um daginn hitti ég mann og þurfti að útskýra fyrir honum að Stefán Hilmarsson og Sigmundur Ernir væru ekki hálfbræður. Hann hafði líka haldið það hálfa ævina. Vinur minn hélt að Grensás væri Hlemmur alveg til 12 ára því hann bjó í úthverfi og skipti alltaf um strætó á Grensási eins og mörg úthverfabörn og fannst það því hljóta að vera aðalstrætóstoppistöðin. Á stúfunum komst blaðamaður að því að margir luma á svona sögum, af einhverju sem þeir voru fullvissir um, sem börn og fullorðnir, vandræðalega lengi oft. Og P.s. Undirrituð lærði allt of fullorðin að Katar er land. Ekki bílategund.

Föðursystir ekki böðull

Ég hélt vandræðalega lengi, fram eftir öllum aldri að djákni og böðull væru sama, hvað á maður að segja, starfið,“ segir Kamilla Einarsdóttir, rithöfundur og bókavörður. „Ég hef sennilega eitthvað bara verið að rugla út af Djáknanum á Myrká eða eitthvað slíkt. En alla vega, þá lenti ég svo í því eitt árið í jólaboði að systir pabba var nýskilin við manninn sinn og ég var svona eitthvað að spyrja hana út í hvernig hún væri að takast á við það og hún svaraði mér, alveg grafalvarleg, að hún væri á leiðinni í Háskólann til að læra að verða djákni og ég alveg hneig niður af hlátri. Mér fannst þetta svo óborganlega svartur húmor hjá þessari kærleiksríku og góðu föðursystur minni og dáðist svo að henni að segja mér svona svipbrigðalaust frá þessu. 

Svo gekk ég um allan bæ og sagði fólki þessa að mér fannst ógeðslega fyndnu sögu. Ég fékk samt yfirleitt litlar undirtektir, en ég skrifaði það að sjálfsögðu bara á húmorsleysi hlustenda. Svo í einhverri fermingarveislu nokkru síðar fer þessi sama frænka svo að segja frá því að hún sé farin að vinna á leikskóla og þar komi þetta djáknanám hennar að góðum notum og þá verð ég að viðurkenna að það fóru að renna á mig tvær grímur, því að þó að ég fíli svartan húmor finnst mér það ekkert rosa fyndið að fara að grínast með einhverjar barnaaftökur, það er svona smá yfir strikið. Svo ég fór að gúgla betur. Það kemur í ljós að það er engum kennt að afhausa neinn í djáknanáminu í Háskóla Íslands og ég er með endalausan móral eftir að hafa gert svona grín að námsvali elsku frænku minnar sem hefur alltaf bara viljað láta gott af sér leiða.“

Svanhildur Hólm Valsdóttir.
Svanhildur Hólm Valsdóttir. Kristinn Magnússon

Ertu ekki í Framsókn?

„Ég hélt sem sagt í nærri heilt ár að Páll Valur Björnsson í Bjartri framtíð væri á þingi fyrir Framsóknarflokkinn. Hann var bara eitthvað svo „framsóknarlegur“. Alþingi fylltist á þeim tíma, vorið 2013, af nýjum framsóknarmönnum, mikið til fólki sem maður hafði aldrei séð áður og fólki sem leit misjafnlega mikið út fyrir að vera í Framsókn. Og þarna var þessi gaur sem ég hafði ekki tekið neitt rosalega mikið eftir í þinginu almennt og hafði einhvern veginn bara sett hann í flokk með öllum nýju framsóknarmönnunum. Þangað til það var komið vor 2014 en þá var ég í hliðarsal að spjalla við hann og áttaði mig á því í spjallinu að hann hafði ekki alveg sömu afstöðu til ríkisstjórnarinnar og ég. Ég hugsaði með mér að þetta væri nú eitthvað skrýtið viðhorf en sagði ekki neitt, fletti honum svo upp. Þetta var svolítið vandræðalegt því við vorum sko í ríkisstjórn með Framsókn. Ég veit. Úff.“

Svanhildur segist mjög slæm með andlit fólks almennt og taka mun betur eftir mörgu öðru, hún geti þess vegna munað hvenær allir þingmenn eigi afmæli og sé stundum glögg á andlit þegar það skipti engu máli. „Ég get alveg verið handviss á andlit og nöfn B-leikara úr amerískum þáttum sem enginn hefur séð. Fólki sem ég sé hins vegar jafnvel reglulega get ég átt erfitt með að átta mig á. Ég er þess vegna mikill fylgismaður þess að nota nafnspjöld.“ Svanhildur segist löngu hætt að reyna að kjafta sig út hinum og þessum aðstæðum þar sem ómanngleggni hennar sé til vansa. „Þetta er svipað og að vera litblindur. Það eina sem bjargar mér frá fullkominni örvæntingu yfir því hvað ég er mikið úti að aka er hvað ég er mikið úti að aka.“

Kjartan Guðmundsson.
Kjartan Guðmundsson. Kristinn Magnússon

Sá lifandi harðfisk

„Það má segja að það sé ákveðið fiskiþema hjá mér en fyrst er það eigin misskilningur, og ég er nú örugglega ekki einn um að hafa haldið vandræðalega lengi að bjór væri gerður úr humrum en ekki humlum, eða hvað?“ segir Kjartan Guðmundsson fjölmiðlamaður. 

Fyndnasta misskilninginn á samt gamall skólabróðir Kjartans. „Hann hélt því statt og stöðugt fram við okkur skólasystkinin að hann hefði séð lifandi harðfisk. Svo var það annar sem hélt að plokkfiskur væri fisktegund eins og þorskur og ýsa, en hann var einmitt að vinna sem þjónn á sjávarréttaveitingastað.“

Umfjöllunin birtist í heild í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins þar sem fleiri segja frá misskilningi sínum og annarra til margra ára.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert