Ákærðir fyrir árás á Houssin

Litla-Hraun.
Litla-Hraun. mbl.is/Sigurður Bogi

Héraðssaksóknari hefur ákært Baldur Kolbeinsson og Trausta Rafn Henriksson fyrir hættulega líkamsárás á ungan hælisleitanda frá Marokkó, Houssin Bsraoi, í janúar síðastliðnum.

Málið verður þingfest í Héraðsdómi Suðurlands á fimmtudaginn.

Houssin varð fyrir alvarlegri líkamsárás í íþróttahúsinu á Litla-Hrauni en hann var fluttur úr landi nokkru eftir að hann varð fyrir árásinni. Houssin hafði ítrekað reynt að komast í skip á leið til Kanada. Eftir nokkrar slíkar tilraunir var hann færður í gæsluvarðhald. Lengst af dvaldi hann hérlendis í umsjón barnaverndaryfirvalda en hann hafði fengið synjun um dvalarleyfi hér á landi.

Spörk í höfuðið

Mennirnir eru báðir ákærðir fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás með því að hafa veist að Houssin með ofbeldi í íþróttahúsinu. Trausti Rafn er ákærður fyrir að hafa kýlt Houssin ítrekað í höfuð og líkama, tekið hann hálstaki, sparkað með fótum og hnjám nokkrum sinnum í líkama hans og að minnsta kosti einu sinni í höfuð á meðan Houssin sat á gólfinu.

Baldur er ákærður fyrir að hafa kýlt Houssin ítrekað í höfuð og líkama, sparkað með hnjám í líkama hans, tekið hann hálstaki, snúið hann niður í gólfið og stappað á og kýlt tvívegis í líkama hans. Eftir að Houssin hafnaði aftur í gólfinu er Baldur sagður hafa reynt að girða niður um hann buxurnar, sest klofvega yfir búk hans og kýlt hann ítrekað með báðum höndum í höfuðið þar til hann missti meðvitund. Á meðan er Trausti Rafn sagður hafa þrívegis stappað á höfði Houssin og sparkað einu sinni í höfuð hans.

Héraðsdómur Suðurlands.
Héraðsdómur Suðurlands. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hlaut heilahristing 

Houssin hlaut mar og húðáverka yfir báðum kinnbeinum, enni og á gagnaugasvæði hægra megin, bólgu í nefi og nefrót, bólgu og húðáverka á vörum, mar, húðáverka og bólgur í vinstri hendi, úlnlið og umhverfis olnbogalið, væga húðáverka á hægri hendi, kúlu hægra megin á hnakka, heilahristing, mar á hægra eyra og mar og eymsli yfir brjóstkassa vinstra megin, auk þess sem tvær tennur í efri góm losnuðu. 

Sagður hafa hrækt í andlit fangavarðar

Trausti Rafn er jafnframt ákærður fyrir brot gegn valdstjórninni með því að hafa sunnudaginn 4. desember 2016, í sameiginlegu rými fanga, kastað stól í fangavörð og síðar hrækt í andlit hans. Fangavörðurinn hlaut tvo marbletti á hægri upphandlegg.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert