Blæs úr ýmsum áttum

Kort/Veðurstofa Íslands

Búast má við vestlægri golu eða kalda víða um land í dag og má búast við snjókomu á norðanverðu landinu. Á morgun verður vindur með rólegasta móti en á miðvikudag mun vindur blása af ýmsum áttum og nokkuð drjúg úrkoma fylgir með og er hún líkleg til að vera slydda eða snjókoma um landið norðanvert. Þetta er meðal þess sem kemur fram í hugleiðingum veðurfræðings á Veðurstofu Íslands í morgunsárið.

„Í dag er útlit fyrir vestlæga golu eða kalda, en strekking syðst. Úrkomusvæði er á leið yfir landið og víða má búast við rigningu eða slyddu og jafnvel verður snjókoma sums staðar á norðanverðu landinu. Síðdegis er úrkomusvæðið komið austur af landi og það syttir upp að mestu hjá okkur. Hitinn verður frá því að vera nærri frostmarki í innsveitum fyrir norðan, upp í 8 stig allra syðst.

Á morgun verður vindur með rólegasta móti. Dálítið úrkomusvæði hreytir úr sér rigningu eða slyddu á suðurhelmingi landsins, en norðan til hangir þurrt í svölu veðri.
Annað kvöld fer að bæta í vind og úrkomu þegar lægð nálgast. Aðfaranótt miðvikudags og á miðvikudaginn mun vindur blása af ýmsum áttum og nokkuð drjúg úrkoma fylgir með og er hún líkleg til að vera slydda eða snjókoma um landið norðanvert.Vestlæg átt 5-10 m/s í dag, en 10-15 syðst. Víða rigning eða slydda, en styttir upp að mestu síðdegis. Hiti 1 til 8 stig, hlýjast syðst,“ segir á vef Veðurstofu Íslands.

Veðurspá fyrir næstu daga

Hæg austlæg eða breytileg átt á morgun og rigning eða slydda með köflum, hiti 1 til 5 stig. Þurrt norðan til á landinu með hita nálægt frostmarki. Bætir í vind og úrkomu annað kvöld.

Á þriðjudag:
Fremur hæg austlæg eða breytileg átt, dálítil rigning eða slydda og hiti 1 til 5 stig. Þurrt norðan til á landinu með hita nálægt frostmarki. Bætir í vind og úrkomu sunnan- og vestanlands um kvöldið. 

Á miðvikudag:
Suðvestan 13-18 m/s og rigning eða slydda, en norðaustlægari og snjókoma á Vestfjörðum. Snýst í norðan 8-13 síðdegis með slyddu eða snjókomu á norðanverðu landinu, en þurrt sunnanlands. Kólnandi veður, hiti víða nálægt frostmarki um kvöldið. 

Á fimmtudag:
Norðan 8-15 m/s og él, en bjartviðri sunnan til á landinu. Hiti kringum frostmark. 

Á föstudag:
Norðan 8-13, en 13-18 austanlands. Léttskýjað sunnan og vestan til, en él um landið norðaustanvert. Frost 0 til 5 stig. 

Á laugardag:
Fremur hæg breytileg átt og víða bjart veður, en dálítil él á norðausturhorninu framan af degi. Áfram kalt í veðri. 

Á sunnudag:
Útlit fyrir vaxandi sunnanátt og þykknar upp með rigningu eða slyddu sunnan- og vestanlands og hlýnar. Hægari vindur norðaustan til með björtu og köldu veðri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert