Til bóta að takmarka persónuupplýsingar

Formaður Lögmannfélags Íslands segir mikilvægt að útdrættir úr dómum geti …
Formaður Lögmannfélags Íslands segir mikilvægt að útdrættir úr dómum geti nýst lögmönnum við vinnu sína. mbl.is/Golli

Berglind Svavarsdóttir, formaður Lögmannafélags Íslands, telur fyrirhugað frumvarp dómsmálaráðherra um breytingar á lögum um birtingu dóma og myndatökur í dómshúsum, vera til bóta.

„Þessar nákvæmu birtingar hafa verið gagnrýndar út frá reglum um persónuvernd og friðhelgi einkalífsins. Það má alveg velta því fyrir sér hvort það sé þörf á svona gríðarlega ítarlegum upplýsingum um persónuleg og viðkvæm málefni. Að því leytinu til tel ég þetta til bóta,“ segir Berglind í samtali við mbl.is. „Ég tel líka til bóta að það sé verið að samræma reglur um birtingu dóma á öllum dómsstigum. Það skiptir mjög miklu máli,“ bætir hún við.

Verði frumvarpið að lögum verða dómar og úr­sk­urðir héraðsdóm­stóla sem varða viðkvæm per­sónu­leg mál­efni ekki leng­ur birt­ir op­in­ber­lega. Þar er um að ræða mál sem snú­ast um lögræði, sifjar, erfðir, mál­efni barna, of­beldi í nán­um sam­bönd­um, nálg­un­ar­bann og kyn­ferðis­brot. Sömu­leiðis er gert ráð fyr­ir að aðeins verði birt­ir út­drætt­ir úr dóm­um Lands­rétt­ar og Hæsta­rétt­ar í slík­um mál­um. Einnig er lögð til nafn­leynd í öll­um til­fell­um við birt­ingu dóma í saka­mál­um um þá sem þar koma við sögu.

Mikilvægt að útdrættir gagnist lögmönnum

Berglind segir þó mikilvægt í þessu samhengi að útdrættir úr dómum verði vel unnir og þannig gerðir að lögmenn get nýtt þá við vinnu sína.

„Það skiptir máli að þessir útdrættir séu vel úr garði gerðir, þannig að þeir komi okkur lögmönnum að gagni, sem þurfum að vera að vísa til þessara dóma í málflutningi og okkar málatilbúnaði, til dæmis varðandi fordæmi og annað. Að við getum áttað okkur á hver eru atvik máls, hverjar eru forsendurnar og á hverju niðurstaðan er reist. Það skiptir mjög miklu máli.“

Berglind Svavarsdóttir, formaður Lögmannafélags Íslands.
Berglind Svavarsdóttir, formaður Lögmannafélags Íslands. Ljósmynd/Landsbankinn

Hún bendir á að það sé skýrt kveðið á um það í frumvarpsdrögum að nauðsynlegt sé að vel takist til í þessum efnum og gerir ekki ráð fyrir öðru en að farið verði eftir því. Fram kemur í drögunum að gert sé ráð fyrir því að í útdrætti dóms sé kröfugerð í málinu lýst eða sakaratvikum, þá sé málsatvikalýsing til staðar, sem og niðurstaða málsins.

„Berglind segir mikilvægt að tryggja að þetta verði raunin. „Það á eftir að koma í ljós hvernig það verður, en við leggjum mikla áherslu á að við verðum að geta nýtt okkur þessa dóma í okkar vinnu. En það hversu ítarlegar upplýsingar eru í dómunum um viðkvæm persónuleg málefni, ég er alveg hlynnt því að þau atriði verði tekin út.“

Áfram hægt að fá endurrit af dómi gegn gjaldi

Aðspurð hvort hún telji að frumvarpið, verði það að lögum, komi til með að breyta einhverju fyrir vinnu lögmanna, gerir hún ekki ráð fyrir því. „Ég sé það ekki fyrir mér, en það er með þeim fyrirvara að þessir útdrættir verði vandaðir. Að það komi þar fram forsendur þannig að hægt sé að ráða af útdrættinum á hverju niðurstaðan er byggð og hvernig er verið að túlka ýmsar réttarreglur og annað sem skiptir máli fyrir okkur.“

Þá tekur Berglind fram að áfram verði heimilt að óska eftir endurriti dóms. „Samkvæmt núverandi lögum er það hægt og dómstólasýslan á að setja reglur um aðgang almennings að dómum. Það er hægt að fá slík gögn gegn gjaldi og á því verður engin breyting. En þar er heimilt að má út atriði sem eru viðkvæm og persónuleg.“

Frumvarpið nær því aðeins til breytinga á birtingu dóma á vefnum, enda getur verið nauðsynlegt fyrir aðra en aðila máls að fá aðgang að dómum í heild, til dæmis vegna fræðavinnu og vinnu við fjölmiðla, líkt og fram er tekið í drögum frumvarpsins.

„Síðan má ekki gleyma því að það er opinber málsmeðferð þannig þinghöld eru opin og fara fram í heyranda hljóði,“ segir Berglind.

Birting dóma hér á landi ítarlegri en á Norðurlöndunum  

Hún bendir að gömlu hæstaréttardómarnir sem gefnir voru út á prenti, hafi verið mun knappari en þeir sem birtast í dag. Þetta hefur breyst í áranna rás. Ég veit ekki hvenær það gerðist, að dómar fóru að vera svona ofboðslega nákvæmir og ítarlegir. Ef maður les eldri dóma þá var þetta ekki svona,“ segir Berglind en fram til ársins 1999 voru Hæstaréttardómar aðeins gefnir út á prenti og þá yfirleitt nokkrum árum eftir uppkvaðningu þeirra. Síðastliðin tuttugu ár hafa þeir aftur á móti verið birtir samdægurs á netinu. Berglind segir þetta vissulega eðlilega þróun í takt við auknar kröfur um aðgengi að upplýsingum. Hún bendir hins vegar á að birting dóma á Norðurlöndunum sé ekki jafnítarleg og nákvæm og verið hefur hér á landi.

„Út frá þessari grundvallarreglu um opinbera málsmeðferð felst einnig birting dóma og að úrlausnir dómstóla séu aðgengilegar öllum þeim sem vilja kynna sér niðurstöður. En svo má alltaf velta þessu fyrir sér út frá persónuverndarsjónarmiðum og friðhelgi einkalífsins. Það er hin hliðin á teningnum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert