Mæður sem gefa börn til ættleiðingar fái styrk

Aðeins eitt barn fætt á Íslandi er ættleitt á ári. …
Aðeins eitt barn fætt á Íslandi er ættleitt á ári. Ættleiðingar barna að utan fela í sér langt og kostnaðarsamt ferli, segir í greinargerð nýs frumvarps. AFP

Tíu þingmenn standa að nýju frumvarpi um fæðingarstyrk til kvenna sem gefa börn til ættleiðingar við fæðingu. Yrði það að lögum fengju mæður fæðingarstyrk í sex mánuði upp á 135.525 kr. á mánuði.

Meðgöngurof fór fram 1.007 sinnum á síðasta ári. 50 pör eru að bíða eftir að ættleiða barn.

Tilgangur frumvarpsins, segir í greinargerðinni, er að koma til móts við konur sem ákveða að gefa barn sitt til ættleiðingar við fæðingu. Í greinargerðinni er þannig tveimur kostum stillt upp hvorum gegn öðrum; ættleiðingu og fóstureyðingu. Með frumvarpinu eigi að draga úr meðgöngurofi en gera þeim sem vilja gefa barn til ættleiðingar þeim mun auðveldara fyrir.

Í greinargerðinni segir meðal annars að „fóstureyðing [sé] erfið og í mörgum tilfellum þungbær ákvörðun fyrir konur“. Á sama tíma er þó ekki minnst á að uppgjöf barns til ættleiðingar kunni að vera það líka.

Fyrsti flutningsmaður frumvarpsins er Birgir Þórarinsson, þingmaður Miðflokksins. Meðflutningsmenn eru flestir miðflokksmenn. Tveir eru úr Flokki fólksins og úr Sjálfstæðisflokknum er Ásmundur Friðriksson. Anna Kolbrún Árnadóttir úr Miðflokki er eina konan sem flytur frumvarpið.

Ferlið á samkvæmt frumvarpinu ekki að vera flóknara en svo að þremur vikum fyrir áætlaðan fæðingardag sæki móðirin skriflega um styrkinn hjá Vinnumálastofnun og fái hann svo. Þá myndi fjárhæð styrksins koma til endurskoðunar hvert ár í fjárlögum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert