Ekki kveðið á um lagningu sæstrengs

Haft er eftir Gunnari Þorgeirssyni í Bændablaðinu að innleiðing þriðja …
Haft er eftir Gunnari Þorgeirssyni í Bændablaðinu að innleiðing þriðja orkupakka Evrópusambandsins myndi án nokkurs vafa leiða til lagningar sæstrengs. mbl.is/​Hari

Óhugsandi er að sæstrengur yrði lagður gegn vilja íslenskra stjórnvalda og þriðji orkupakkinn leggur engar skyldur á herðar Íslandi um að samþykkja hugsanlegan sæstreng. Þetta kemur fram í tilkynningu frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu vegna ummæla formanns Sambands garðyrkjubænda í Bændablaðinu í dag.

Haft er eftir Gunnari Þorgeirssyni í blaðinu að innleiðing þriðja orkupakka Evrópusambandsins myndi án nokkurs vafa leiða til lagningar sæstrengs og hækkunar á raforkuverði, og að í kjölfarið verði borðleggjandi að íslensk garðyrkja leggist af í þeirri mynd sem hún er nú.

Í tilkynningu ráðuneytisins segir að enginn vafi leiki á því að leyfisveitingarvaldið yrði eftir sem áður hjá íslenskum stjórnvöldum og að engar millilandatengingar fari á verkefnalista ESB nema með samþykki viðkomandi stjórnvalda. Jafnframt segir að reglugerðin um verkefnalistann hafi raunar ekki verið innleidd í EES-samninginn og sé ekki hluti af þriðja orkupakkanum.

„Þá er sérstaklega kveðið á um að kerfisáætlun sambandsins sé óbindandi fyrir aðildarríkin.“

Þá segir að sé það raunin að grunnreglur EES-samningsins um frjálst vöruflæði geri það að verkum að óheimilt sé að leggja fortakslaust bann við lagningu strengs, eins og vangaveltur hafi verið uppi um, hafi það verið staðan frá því að EES-samningurinn var samþykktur fyrir aldarfjórðungi og með öllu ótengt þriðja orkupakkanum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert