Sveitarfélög skylduð í samræmda flokkun

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, tekur hér á móti …
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, tekur hér á móti tillögum samráðsvettvangsins. mbl.is/​Hari

Banna á örplast í snyrtivörum og einnota plast frá 1. janúar 2020, tryggja vöktunarkerfi með plasti í hafi og skylda sveitarfélög í samræmda flokkun á úrgangi. Þetta er meðal tillagna að aðgerðaáætlun sem samráðsvettvangur í plastmálefnum afhenti umhverfisráðherra í dag.

Aðgerðaráætlunin er í 18 liðum, en samráðsvettvangurinn var skipaður var fulltrúum úr atvinnulífinu, frá sveitarfélögum, félagasamtökum, stofnunum, Alþingi og ráðuneytum.

Leggur hópurinn m.a. til að frá 1. janúar 2019 verði engir plastpokar afhentir án endurgjalds. 1. janúar árið eftir verði svo tiltölulega hár skattur lagður á burðarplastpoka til að minnka notkun þeirra verulega og 1. janúar 2021 verði þeir bannaðir með öllu.

Bann við plasthnífapörum, plastdiskum, plaströrum og öðru einnota plasti skv. tillögu Evrópusambandsins er einnig lagt til og vill samráðsvettvangurinn að hafist verði handa við að innleiða ESB tilskipunina sem fyrst  og að hún öðlist gildi hér 1. janúar 2020.

Samráðshópurinn vill einnig sjá stefnu hjá helstu atvinnugreinum um hvernig draga megi úr notkun plasts í þeirra greinum og að sveitarfélög og rekstraraðilar verði skylduð til að koma á samræmdri flokkun úrgangs, en til þess þurfi að koma á samræmdri lögbundinni grunnflokkun úrgangs á landsvísu.

Þá er lagt til að settur verði á fót sérstakur rannsókna- og þróunarsjóður sem styrki rannsókna- og þróunarverkefni um endurvinnslu plasts og um staðgönguvörur plasts. Farið verði í vitundarvakningu um ofnotkun á einnota plastvörum, viðurkenningar veittar fyrir framúrskarandi plastlausar lausnir og græn skref stigin í rekstri allra ríkisstofnanna.

Loks verði neytendum auðveldað að koma í verslanir með fjölnota umbúðir undir keypta matvöru og er lagt til að Matvælastofnun útbúi leiðbeiningar þess efnis. 

Samráðshópurinn vill að sveitarfélög og rekstraraðilar verði skylduð til að …
Samráðshópurinn vill að sveitarfélög og rekstraraðilar verði skylduð til að koma á samræmdri flokkun úrgangs. Mynd úr safni. mbl.is/Gúna

Greiði úrvinnslugjald fyrir allt plast

Samráðshópurinn vill líka að  hagrænir hvatar verði notaðir til að koma sem mestu plasti til endurvinnslu og bendir á að hugmyndir hafi verið uppi í Evrópu um að setja úrvinnslugjald á allt plast til að auka skil á því til endurvinnslu. Slíkt megi vel gera hér á landi í samstarfi við Úrvinnslusjóð og sorpvinnsluaðila.

Miðlægri upplýsingagjöf og ráðgjöf til fyrirtækja um grænar lausnir sem henta þeirri starfsemi, væri einnig af hinu góða. Til að mynda með því að upplýsa framleiðendur og seljendur um að notkun litaðra plastbakka undir matvörur skapi aukinn kostnað við endurvinnslu og bændur um að endurvinnslugæði í heyrúlluplasti aukist sé eingöngu notað hvítt plast.

Þá leggur hópurinn einnig til skattaívilnanir til fyrirtækja við kaup á tækjabúnaði sem notaður er til endurvinnslu plasts, búnað sem mögulegt væri að nota til að skipta yfir í aðrar vörur en plast og búnað sem að öðru leyti er notaður til að draga úr plastnotkun.

Bætt hreinsun á frárennsli og vöktun á plasti í hafi

Eins vill samráðshópurinn að  umhverfis- og auðlindaráðuneyti, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, Umhverfisstofnun og Hafrannsóknarstofnun komi á samhæfðum aðgerðum við vöktun hafs, stranda, hafsbotns og lífvera með tilliti til plastmengunar. Þannig verði komið á heildstæðu vöktunarkerfi fyrir plast í hafi, en  slíkar aðgerðir verði þó að vera staðlaðar og samanburðarhæfar við aðrar þjóðir.

Einnota plasthnífapör og plastglös verða bönnuð hér á landi frá …
Einnota plasthnífapör og plastglös verða bönnuð hér á landi frá 2020 verði tillögur samráðshópsins samþykktar. AFP

Bætt hreinsun frárennslis í því skyni að minnka losun örplasts í hafið er einnig nokkuð sem hópurinn vill sjá, en á Íslandi er ekkert skólp hreinsað með tilliti til örplasts. Norræn rannsókn frá árinu 2016 hefur sýnt fram á að töluvert af örplasti fer í gegnum hreinsistöðvar út í hafið og leggur hópurinn til að áhersla sé lögð á bætta hreinsun í stærstu byggðum í upphafi aðgerða, sem og á viðkvæmum svæðum þar sem álag vegna ferðaþjónustu er mikið.

Eins er lagt er til að uppbygging nýrra hverfa taki mið af uppbyggingu settjarna sem mikilvægri mengunarvörn og áhersla verði lögð á að fjölga settjörnum í núverandi hverfum í þéttbýli til að varna því að ofanvatn og vegryk berist í ferskvatn og hafið. Þá verði sveitarfélög hvött til að skoða hvort settjarnir kunni að vera hentugar mengunarvarnir við nýjar framkvæmdir, í ljósi þess að hægt er að nota þær til að hreinsa örplast úr umhverfinu.

Banni örplast í snyrtivörum

Að lokum leggur samráðshópurinn til að bann við innflutningi og framleiðslu á  hreinlætis- og snyrtivörum sem innihalda örplast frá og með 1. janúar 2020, en sambærilegt bann tók gildi í Bretlandi fyrr á þessu ári.

Þjóðarátaks sé þörf  í hreinsun íslenskra stranda svo landið standi undir staðhæfingum um þann hreinleika og með skyldumerkingu staðbundinna veiðarfæra verði hægt að auka rekjanleika þeirra. „Jafnframt þarf að gæta að því að önnur lög eða reglugerðir vinni ekki á móti tilkynningarskyldu á töpuðum veiðarfærum, þannig að ekki lendi kostnaður á þeim aðila sem tilkynnir um tap á veiðarfærum heldur aðeins á þeim sem skilja veiðarfæri eftir af ásetningi og engin tilkynning er til um,“ segir í skýrslunni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert