„Það er lykilatriðið að heilbrigðisstefnan geti lifað af mörg kjörtímabil,“ sagði Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra í opnunarávarpi sínu á heilbrigðisþingi sem hófst á Grand hótel nú í morgun. Heilbrigðisstefnan þurfi að vera skjal sem samfélagið sé sammála um, sem alþingi geti lokið í þverpólitískri sátt og sem síðar verði vinnuskjal margra heilbrigðisráðherra.
Sagði Svandís þá yfirferð yfir drögin að heilbrigðisstefnu til 2030 sem fundarmenn séu með til umfjöllunar vera nauðsynlega til að hægt sé að bæta þjónustuna, hvort sem um sé að ræða geðheilbrigði, ávana- og fíknisjúkdóma, almenna heilsugæslu eða annað. „Þessi grunnatriði þurfa öll að hvíla á sameiginlegum grunni,“ bætti ráðherra við.
Vissulega hafi skýrslur verið unnar um málið áður. Ráðherra kvaðst þó vilja þó þagga niður í efasemdaröddum um að hér komi enn ein skúffuskýrslan. „Af hverju er þetta eitthvað öðru vísi?“ spurði Svandís og kvað nokkur formleg atriði koma þar til sögunnar, eins og nýlega úttekt embættis Landlæknis og Ríkisendurskoðunar. Þá standi ríkið á vissum tímamótum varðandi heilbrigðisþjónustuna, ákveðnir samningar séu að renna út, nýr Landspítali sé í byggingu og sameining heilbrigðisstofnanna úti á landi hafi líka sitt að segja.
„Og hvað gerist svo?,“ sagði Svandís. „Heilbrigðisráðherra á hverjum tíma leggur fram 5 ára aðgerðaráætlun á grundvelli heilbrigðisstefnunnar. Hann kynnir hana á hverju ári líkt og gert er með fjármálaáætlunina. Þannig tryggjum við að heilbrigðisstefnan verði virkur grunnur fyrir aðgerðaáætlanir á hverjum tíma.“
Sagði ráðherra vissulega alltaf vera áskorun að setja fram stefnu á borð við þessa. Mikilvægt sé þó að ná sátt um hana, án þess að hún verði lægst samnefnari allra sjónarmiða. „Þarna þarf skýra hugsun og skíran vilja íslensks samfélags um að heilbrigðisþjónustan sé eitt þessara mikilvægu grunnmála.“
Meiri hluti Evrópuþjóða hafi sett sér heilbrigðisstefnu og það sé aðkallandi og mikilvægt að slík stefna verði sett hér á landi. „Heilbrigðisstefna á að vera leiðarljós sem sameinar krafta þeirra sem veita heilbrigðisþjónustu og tryggir sjúklingum bestu þjónustu sem völ er á, þar sem öryggi, gæði og jöfnuður eru í fyrirrúmi.“
Vilhjálmur Árnason, prófessor í siðfræði við Háskóla Íslands, sem einnig tók til máls á fundinum, sagði faglega kröfu um árangur, siðferðlega kröfu um réttlæti og pólitíska kröfu um hagkvæmni vera mikilvæga þætti í mörkun heilbrigðisstefnu.
„Markmið er að veita árangursríka og réttláta heilbrigðisþjónustu á eins hagkvæman hátt og kostur er,“ sagði Vilhjálmur og bætti við rök um réttlæti og fagleg rök, væru hagkvæmniskröfunni alltaf yfirsterkari hvað heilbrigðismálin varði.