CRI hefur framkvæmdir við tilraunaverksmiðju

Tilraunaverksmiðjan mun hafa framleiðslugetu upp á 1 tonn metanóls á …
Tilraunaverksmiðjan mun hafa framleiðslugetu upp á 1 tonn metanóls á dag og búist er við að framleiðsla geti hafist í janúar á næsta ári. Ljósmynd/CRI

Íslenska fyrirtækið Carbon Recycling International (CRI) og samstarfsaðilar þess í MefCO2 verkefninu hófu í októbermánuði framkvæmdir við tilraunaverksmiðju sína í Niederaußem í Þýskalandi. Verkefninu er ætlað að sýna fram á hvernig nýta má tæknilausn fyrirtækisins við fjölbreyttar aðstæður, en hún byggir á hagnýtingu koltvísýrings frá iðnaði til eldsneytisframleiðslu. 

Ásamt því að draga úr koltvísýringslosun frá kolaorkuverinu á verkefnið að sýna fram á getu ETL (Emissions-to-Liquids) tækninnar til þess að laga sig að sveiflukenndu framboði raforku, líkt og þeirri sem framleidd er í sólar- og vindorkuverum. Sá eiginleiki eykur skilvirkni sveiflukenndrar orkuframleiðslu með því að geyma raforku sem framleidd er á álagstímum, í vökvaformi sem metanól og jafna þannig orkuframboðið hverju sinni á hagkvæman hátt. Bætt nýting sveiflukenndra orkugjafa með þessum hætti er svo til þess fallin að auka hlut þeirra í orkuframboði. 

Kerfi CRI samanstendur af gasþjöppu, hvarfakúti og geymslubúnaði en því var komið fyrir við kolaorkuverið í síðustu viku og nú er unnið að því að tengja kerfið við aðra innviði á svæðinu. Mun tilraunaverksmiðjan hafa framleiðslugetu upp á 1 tonn metanóls á dag og búist er við að framleiðsla geti hafist í janúar á næsta ári.  

Síðar sama ár verður búnaðinum komið fyrir við stálverksmiðju í Svíþjóð sem hluti af öðru rannsóknarverkefni sem ber heitið FreSMe. Í því verkefni verður vetni ekki framleitt með rafgreiningu heldur unnið úr afgasi  sem myndast þegar súrefni er fjarlægt úr járnoxíði í framleiðsluferlinu.

Fram kemur í tilkynningu að CRI hafi verið brautryðjandi á heimsvísu á sviði hagnýtingar koltvísýrings frá árinu 2006, en árið 2012 var fyrsta verksmiðja fyrirtækisins búin tækni þess til eldsneytisframleiðslu tekin í gagnið í Svartsengi. Þar er koltvísýringur sem losnar frá jarðvarmavirkjun HS orku nýttur til framleiðslu á metanóli. CRI hefur hafið markaðsvæðingu tækni sinnar og opnaði dótturfyrirtæki í Kína á síðasta ári þar sem ætlunin er að reisa verksmiðjur á komandi árum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert