Eykur stöðugleika í ferðaþjónustunni

Sigurður Ingi Jóhannsson.
Sigurður Ingi Jóhannsson. mbl.is/Sigurður Bogi

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, segir stjórnvöld ekki hafa haft afskipti af kaupum flugfélagsins Icelandair á WOW air en nefnir að þau muni halda áfram að fylgjast grannt með gangi mála eins og þau hafi gert á undanförnum mánuðum.

Hann segir samkeppnina afar harða í flugþjónustu og það eigi ekki síst við um markaðinn í Norður-Atlantshafi. „Við höfum séð að flugrekstraraðilar hafa átt í rekstararerfiðleikum á undanförnum misserum, meðal annars vegna hækkandi eldsneytisverðs, sem hafa ekki komið fram í hækkandi flugfargjöldum. Það á ekki bara við um íslensk félög,“ segir Sigurður Ingi í samtali við mbl.is.

Hann bendir á að efnahagslegt mikilvægi ferðaþjónustu hafi aukist til muna hérlendis og því sé mjög æskilegt að sem mestur stöðugleiki sé tryggður fyrir þá grein og þar skipti flugið öllu máli. „Um leið er mjög mikilvægt að það ríki samkeppni í flugrekstri, bæði hér á landi og til og frá landinu, en um leið að það séu öflug félög sem hafi burði til að taka þátt í þessari hörðu, alþjóðlegu samkeppni,“ segir Sigurður Ingi.

„Í því samhengi er rétt að muna að það eru hátt í 30 félög sem bjóða upp á regluleg flug til og frá Íslandi. Það er engu að síður mikilvægt ef af þessu verður að þau [Icelandair og hið nýja félag þess] muni standast þá samkeppni og geti boðið Íslendingum upp á góð kjör á flugi til og frá Íslandi. Þetta eykur örugglega ábyrgð þeirra.“

Hann bætir við: „Ef þetta gengur eftir gefur þetta meiri stöðugleika á þessu rekstrarumhverfi, sem er ein mikilvægasta undirstaðan í ferðaþjónustunni.“

Farþegar á leið út úr flugvél Icelandair.
Farþegar á leið út úr flugvél Icelandair. mbl.is/Sigurður Bogi
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert