„Lág leiga“ metin af fasteignasölum

Hlemmur mathöll.
Hlemmur mathöll. Ljósmynd/Ómar Sverrisson

Vegna frétta af lágu leiguverði húseignarinnar sem hýsir Mathöllina á Hlemmi kemur fram í tilkynningu frá Reykjavíkurborg að verðið hafi verið metið af þremur löggiltum fasteignasölum. Leiguverð hafi tekið mið af stöðu atvinnuhúsnæðis á svæðinu auk kvaða sem borgin lagði á eignina.

Félag atvinnurekenda hefur sent Samkeppniseftirlitinu erindi og fer fram á að stofnunin skoði samning Reykjavíkurborgar við rekstraraðila Hlemms mathallar, með tilliti til þess hvort hann feli í sér opinberan styrk sem raski samkeppni á markaði.

Miðað við verðlag í október 2018 er leigan kr. 1.209.254 á mánuði eða kr. 14.511.049 á ársgrundvelli, samkvæmt upplýsingum frá Reykjavíkurborg. Samkvæmt leigusamningnum er hið leigða húsnæði 529 fm og leiguverð á fermetra því tæpar 2.300 krónur, samkvæmt vefsíðu FA.

Þar segir enn fremur að leiguverð í nágrenni Hlemms sé þrefalt á við leiguna sem Mathöllin greiði til Reykjavíkurborgar en rekstraraðili mathallarinnar framleigir það áfram til fyrirtækja á Hlemmi.

Í tilkynningu frá borginni segir að núverandi leigusamningur við leigutaka, Sjávarklasann, tiltaki ýmsar kvaðir á eigninni. Þar megi ekki selja ferðamannavarning, salernin verða að vera opin og aðgengileg almenningi og miðrými hússins er ætlað farþegum Strætó.

„Í tengslum við samninga við Sjávarklasann um þróun og rekstur Mathallarinnar voru þrír löggiltir fasteignasalar, sem allir hafa mikla þekkingu á fasteignamarkaði atvinnuhúsnæðis í borginni, fengnir til að leggja mat á útleiguverð fasteignarinnar. Með því að byggja á mati þeirra var tryggt að húsið væri leigt út á markaðskjörum,“ kemur fram í tilkynningu borgarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert