Hverfi tengd með nýjum strætóvegum?

Hugmyndin með nýjum strætóvegum sem stytta leið milli ákveðinna hverfa …
Hugmyndin með nýjum strætóvegum sem stytta leið milli ákveðinna hverfa er að þeir verða aðeins ætlaðir strætó og ekki opnir almennri umferð. mbl.is/​Hari

Strætóvegur í gegnum Fossvogsdal annars vegar og frá Seljahverfi yfir í Salahverfi hins vegar er meðal tillagna sem finna má í skýrslu sem Strætó bs. lét vinna um eflingu almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu. Hugmyndin með vegunum tveimur er að þeir verða aðeins ætlaðir strætó og ekki opnir almennri umferð.

Skýrslan er liður í samningi ríkisins og Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu (SSH) um eflingu almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu á árunum 2012-2022 og var unnin af Mannviti. Skýrslan var til umfjöllunar á fundi borgarráðs í dag.

Vegirnir munu leysa ýmsar hindranir

Verkefnið hefur nú þegar skilað árangri, meðal annars með forgangsakreinum og forgangsljósum á nokkrum fjölförnum gatnamótum á höfuðborgarsvæðinu.

Tillaga að tveimur nýjum strætóleiðum er í skýrslunni sem munu leysa bæði ósýnilegar hindranir á borð við sveitarfélagamörk og sýnilegar hindranir á borð við útivistarsvæði sem orðið hafa til þess að samgönguskipulag miðar ekki við stystu leið milli tveggja hverfa, að því er fram kemur í skýrslunni. 

Stysta leið frá Salahverfi í Seljahverfi með bíl í dag …
Stysta leið frá Salahverfi í Seljahverfi með bíl í dag er um sex kílómetra löng en með 110 metra löngum strætóvegi myndast möguleiki á talsvert betri tengingu með strætó. Kort/mbl.is

Tenging milli Sala- og Seljahverfis 

Fyrri leiðin sem um ræðir myndi liggja frá Lambaseli í Seljahverfi í Breiðholti yfir í Rjúpnasali í Salahverfi í Kópavogi.

Stysta leið þar á milli með bíl í dag er um sex kílómetra löng en með 110 metra löngum strætóvegi um Rjúpnahæð myndast möguleiki á talsvert betri tengingu með strætó, að því er fram kemur í skýrslunni.

Tenging milli Bústaðahverfis og Kópavogs

Seinni leiðin miðar að því að búa til nýja almenningssamgöngutengingu milli Bústaðahverfis og Kópavogs með því að leggja um 270 metra langan veg frá Hörgslandi að Fagralundi. Kostnaður við veginn er áætlaður frá 65 til 75 milljónir, miðað við einbreiðan strætóveg.

Önnur tillagan felst í að tengja Bústaðahverfi og Kópavog með …
Önnur tillagan felst í að tengja Bústaðahverfi og Kópavog með því að leggja um 270 metra langan veg frá Hörgslandi að Fagralundi. Kort/mbl.is

Tillögurnar eru ekki komnar í formlegt ferli en eru til umræðu í borgarkerfinu þar sem skýrslan var lögð fram í borgarráði í dag. Gert er ráð fyrir nokkrum tíma í undirbúning, sérstaklega þar sem tengingin þverar sveitarfélagamörk og útivistarsvæði.


mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert