Kæru í Víkurgarðsmáli vísað frá

Frá framkvæmdum á Landsímareitnum.
Frá framkvæmdum á Landsímareitnum. mbl.is/​Hari

Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur vísað frá máli sóknarnefndar Dómkirkjunnar í Reykjavík sem kærði ákvörðun umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkur að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Kvosarinnar, Landsímareits, en málið tengist Víkurgarði.

Fram kemur í úrskurðinum, að sóknarnefndin byggði aðild sína m.a. á því að Dómkirkjan í Reykjavík hefði eignar- og umráðarétt á landi Víkurgarðs. Úrskurðarnefndin segir hins vegar að undir rekstri málsins hefðu orðið breytingar á þinglesnum heimildum hvað varðar kirkjugarðinn. En 15. ágúst 2018 var móttekið til þinglýsingar skjal undirritað af ráðherra Íslands, dags. 21. október 1904.

„Kunngjörir ráðherra þar að Reykjavíkurkaupstað sé afsöluð lóð kirkjugarðs í Reykjavík er lagður hefði verið niður á árinu 1837. Var skjalið fært inn í þinglýsingarbækur 6. september 2018. Getur sóknarnefnd Dómkirkjunnar því ekki byggt aðild sína á eignar- og umráðarétti yfir Víkurgarði,“ segir í úrskurðinum.

Þá hélt sóknarnefndin því einnig fram fram að þar sem Víkurgarður hefði ekki verið formlega aflagður væri hann enn á forræði hennar. Úrskurðarnefndin var hins vegar á öðru máli því gögn bendi til þess að kirkjugarðurinn hafi verið lagður nðiur árið 1837.

Úrskurðarnefndin segir ljóst að sóknarnefnd Dómkirkjunnar sé ekki réttur aðili til að taka afstöðu til þess hvernig fara eigi með hinn niðurlagða kirkjugarð og varð kæruaðild hennar ekki á því reist.

Að auki byggði sóknarnefndin aðild sína á grenndarhagsmunum Dómkirkjunnar.

„Við mat á því hvort kærandi hafi slíkra hagsmuna að gæta verður að líta til þess að Dómkirkjan er staðsett í ríflega 100 m fjarlægð frá þeim reit þar sem framkvæmdir eru fyrirhugaðar. Er ljóst af staðháttum að hagsmunir kæranda munu ekki skerðast á nokkurn hátt að því er varðar skuggavarp, útsýni eða innsýn. Þá verður ekki séð að með starfrækslu hótels verði slík aukning á umferð eða umgangi í miðborginni að svo veruleg áhrif hafi á hagsmuni kæranda að þeir teljist lögvarðir í skilningi 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011.“

Úrskurðarnefndin komst því að þeirri niðurstöðu að sóknarnefndin ætti ekki kæruaðild vegna ágreinings um lögmæti hinnar umdeildu deiliskipulagsbreytingar og samþykktar hins kærða byggingarleyfis. Var málinu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert