Sameinað félag taki til starfa eftir áramót

Stefnt er að því að nýtt sameinað félag Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar …
Stefnt er að því að nýtt sameinað félag Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar og SFR taki til starfa í janúar á næsta ári. Ljósmynd/Aðsend

Formenn SFR og Starfsmannafélags Reykjavíkur eru báðir ánægðir með þá afgerandi niðurstöðu félagsmanna að sameina eigi félögin. Nafn á nýju sameinuðu félagi verður ákveðið með könnun meðal félagsmanna.

„Við erum mjög ánægð með þessa niðurstöðu. Við erum líka mjög ánægð með þátttökuna, að mörgu leyti er þetta afgerandi niðurstaða og gott að svo skyldi vera,“ segir Árni Stefán Jónsson, formaður SFR, í samtali við mbl.is. Garðar Hilmarsson, formaður Starfsmannafélags Reykjavíkur, tekur í sama streng en hann hefði viljað sjá meiri þátttöku hjá sínum félagsmönnum.  

Alls tóku 27,34% félagsmanna Starfs­manna­fé­lags Reykja­vík­ur­borg­ar þátt og sögðu 77,2% já en 17,56% nei.  5,5% tóku ekki af­stöðu. Þátttakan var heldur meiri hjá SFR þar sem 40,75% fé­lags­manna þátt og sögðu 57,25% já en 37,07% nei. 5,68% tóku ekki af­stöðu.

Koma öflugri inn í kjaraviðræður

„Nú er heljarmikið starf eftir að ræða þessi félög saman, það verður ekki gert á einum degi,“ segir Árni. Stjórnir félaganna munu koma saman strax eftir helgi og huga að næstu skrefum. Að sögn Garðars er stefnt að því að undirbúningsvinnan muni taka um þrjá mánuði og að stofnfundur nýs sameinaðs félags fari fram í lok janúar. „En svo er þetta vegferð sem við vitum ekki fyrirfram hvað tekur langan tíma,“ segir hann.

Árni og Garðar eru sannfærðir um að sameinað félag verði betur í stakk búið til þess að mæta verkefnum framtíðarvinnumarkaðsins sem og komandi kjaraviðræðum. Garðar segir að undirbúningur sameiningarinnar muni ekki koma niður á komandi kjaraviðræðum heldur gera þær öflugri. „Draumurinn er að klára sameininguna áður en flestir kjarasamningar losna í mars en á þessari vegferð munum við skoða hvernig við náum fólki saman í samninganefndum af því að við erum að gera kjarasamninga við ríkið, Reykjavíkurborg og Samband íslenskra sveitarfélaga. Nefndirnar munu væntanlega setjast saman yfir kröfugerðina,“ segir hann.

Stjórnir beggja félaga starfi fram að stofnfundi

Áætlað er að stjórnir beggja félaga starfi fram að stofnfundi nýs sameinaðs félags. Ekki hefur verið tekin ákvörðun um hvernig ný stjórn verði skipuð.

„Ég lít svo á að mín þátttaka felst í að klára verkefnið, hvað langan tíma það tekur veit ég ekki,“ segir Garðar en hann hyggst láta af störfum fljótlega eftir sameininguna á meðan Árni hefur lýst yfir áhuga á að fylgja sameiningunni eftir.

Garðar Hilmarsson, formaður Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar, og Árni Stefán Jónsson, formanni …
Garðar Hilmarsson, formaður Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar, og Árni Stefán Jónsson, formanni SFR stéttarfélags í almannaþjónustu, takast í hendur eftir að sameining félaganna var samþykkt í allsherjaratkvæðagreiðslu. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert