Varað við slæmu veðri

Kort/Veðurstofa Íslands

Víða allhvöss eða hvöss austanátt við fjöll sunnanlands en hvöss norðaustanátt á Suðausturlandi og Vestfjörðum á morgun. Búist er við talsverðri eða mikilli rigningu og vatnavöxtum á suðaustanverðu landinu í nótt og á morgun. Vegfarendur og aðrir ferðamenn eru beðnir um að fara varlega á þessum slóðum, segir á vef Veðurstofu Íslands.

„Stíf austanátt sunnanlands í dag og rigning með köflum, en hægari og víða bjartviðri nyrðra. Í nótt hvessir úr norðaustri og nær vindur jafnvel í stormstyrk í Öræfum og Mýrdal. Síðdegis dregur yfirleitt heldur úr vindi, nema á Vestfjörðum þar sem herðir á honum.

Upp úr miðnætti leggst þétt úrkomusvæði að austanverðu landinu. Rignir í framhaldinu talsvert á Suðausturlandi og Austfjörðum og áfram til sunnudags, þó að heldur hafir dregið úr rigningunni þá. Því má búast við vatnavöxtum suðaustan til um helgina og eru ferðamenn á þeim slóðum beðnir að hafa það í huga. Hlýtt í veðri fram á sunnudag, en þá fer að kólna, einkum á norðanverðu landinu,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings Veðurstofu Íslands.

Spáin fyrir næstu daga

Austlæg átt, 10-18 m/s, hvassast við fjöll syðst á landinu og rigning eða súld með köflum, en hægari fyrir norðan og bjart með köflum. Vaxandi norðaustanátt í nótt, 13-23 m/s á morgun, hvassast á SA-landi um morguninn, en á Vestfjörðum um kvöldið. Rignir á A-verðu landinu í nótt og á morgun, talsverð eða mikil úrkoma SA-lands, en annars úrkomulítið. Hiti 2 til 10 stig, hlýjast með S-ströndinni.

Á laugardag:
Austan og norðaustan 13-20 m/s, hvassast SA-til um morguninn, en á Vestfjörðum um kvöldið. Víða rigning, talsverð A-lands, en úrkomulítið SV-til. Hiti 2 til 9 stig, hlýjast syðst. 

Á sunnudag:
Norðaustan 13-20 m/s og rigning eða slydda NV-til, en annars austlæg átt, 8-13 og væta með köflum. Hiti 2 til 7 stig að deginum, en frystir inn til landsins um kvöldið. 

Á mánudag:
Stíf norðaustanátt NV-lands, en annars mun hægari vindur. Rigning eða slydda á N- og A-verðu landinu, annars yfirleitt bjartviðri. Hiti 0 til 5 stig. 

Á þriðjudag, miðvikudag og fimmtudag:
Útlit fyrir austlæga eða breytilega átt, úrkomu með köflum og fremur svalt veður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert