Telur ekki víst að kaupin gangi eftir

Benedikt Jóhannesson og Sigurður Már Jónsson í Silfri Egils í …
Benedikt Jóhannesson og Sigurður Már Jónsson í Silfri Egils í morgun. Ljósmynd/Skjáskot/RÚV

Benedikt Jóhannesson, fyrrverandi fjármálaráðherra, sagði í Silfri Egils nú í morgun að ekki væri enn víst að af kaupum Icelandair á WOW air verði. Enn væru mikilvægir þættir sem biðu skoðunar, svo sem hvaða skilyrði Samkeppniseftirlitið myndi setja gagnvart kaupunum.

Benedikt var gestur í þættinum ásamt Oddnýju G. Harðardóttur, Sigurði Má Jónssyni og Marinó G. Njálssyni. Rætt var um vaxtahækkanir Seðlabanka Íslands, komandi kjaraviðræður, verkalýðshreyfinguna og tíðindi síðustu vikna úr ferðamálaiðnaðinum. 

„Ég er ekki viss um að þessi kaup muni verða. Staðan þarna er örugglega mjög alvarleg,“ sagði Benedikt. Hann sagði það blasa við að valið sem stæði til boða væri annað hvort að WOW air færi yfir um fjárhagslega, s.s. í gjaldþrot, eða að Icelandair ákvæði að kaupa félagið. Bæði félög hefðu lent í fjárhagsörðugleikum undanfarna mánuði en Icelandair væri „miklu sterkara félag“ fjárhagslega. 

Ekki búið að telja upp úr kössunum

„Þetta er alls ekki orðið,“ sagði Bendikt og sagði að þó svo að kaup Icelandair á WOW air kynni að vera eina lausnin á vandanum væri sú staða ekki endanlega komin á. Samkeppniseftirlitið gæti t.a.m. sett þau skilyrði að enginn í stjórn WOW air kæmi úr röðum Icelandair, sem gæti reynst erfitt í framkvæmd. Eins ættu hluthafar Icelandair eftir að fara yfir stöðu mála. „Það er bara ekki búið að telja upp úr kössunum,“ sagði Benedikt.

Marínó G. Njálsson, tölvunarfræðingur, var einnig gestur Egils í þættinum og sagði að hann vonaðist til þess að WOW air „lifði þetta af“. Félagið hefði öðlast slíka hlutdeild á markaði að það myndi taka mánuði og ár að fylla í skarð þess. Höggið sem myndi koma á íslenskt efnahagskerfi ef WOW air „færi yfir um“ yrði mjög alvarlegt í samanburði við nýlegar vaxtahækkanir Seðlabankans.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert