Ammoníaksleki á Akranesi

Lögregla og slökkvilið eru nú við eina af byggingum HB Granda á Akranesi vegna ammoníaksleka.

Lögreglan á Vesturlandi vill benda fólki á að loka gluggum og kynda hús sín til að koma í veg fyrir að ammoníak komist inn til þess.

Gat kom á ammoníakslögn í húsinu fyrr í kvöld en fljótlega gekk að skrúfa fyrir. Enginn var í húsinu þegar lekinn kom upp en að sögn Þráins Ólafssonar, slökkviliðsstjóra á Akranesi, skapast alltaf ákveðin hætta þegar ammoníak kemst út í andrúmsloftið.

Slökkviliðið hefur verið með eftirlit á svæðinu en að sögn Þráins eru liðsmenn komnir aftur í hús, en starfsmaður HB Granda er á vaktinni. Hætta mun vera liðin hjá, en íbúar í grenndinni eru engu að síður beðnir um að hafa glugga lokaða, en ammoníakslykt fannst í nágrenninu.

Fréttin hefur verið uppfærð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert