Andlát: Jón R. Hjálmarsson

Jón R. Hjálmarsson.
Jón R. Hjálmarsson.

Jón R. Hjálmarsson, fyrrverandi fræðslustjóri, lést á Landspítalanum í Reykjavík síðastliðinn laugardag, 96 ára að aldri.

Hann fæddist 28. mars 1922 í Bakkakoti, Vesturdal í Skagafirði, sonur þeirra Hjálmars Jónssonar og Oddnýjar Sigurrósar Sigurðardóttur. Hann lauk búfræðiprófi frá Hólum 1942, stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri 1948, cand. mag.-prófi í ensku, þýsku og sögu frá Óslóarháskóla 1952 og cand. philol.-prófi í sagnfræði frá sama skóla árið 1954.

Eftir nám gerðist Jón skólamaður og var skólastjóri Héraðsskólans í Skógum undir Eyjafjöllum 1954-1968 og frá 1970-1975 og skólastjóri við Gagnfræðaskólann á Selfossi 1968-1970. Hann var síðan fræðslustjóri á Suðurlandi frá 1975 til starfsloka árið 1990. Jón og fjölskylda hans bjuggu um árabil á Selfossi en síðastliðin fimmtán ár í Reykjavík.

Um árabil sinnti Jón leiðsögn með erlenda ferðamenn og Íslendinga raunar líka og fór í slíkar ferðir, meðal annars með eldri borgara, alveg fram á síðastliðið ár. Þá fékkst hann við margvísleg ritstörf og eftir hann liggja margar bækur, meðal annars kennslurit og bækur um sagnfræði og þjóðlegan fróðleik af ýmsum toga. Fyrr á tíð sá hann meðal annars um útvarpsþætti og tók viðtöl við fólk sem síðar komu út í bókarformi. Síðustu árin skrifaði Jón leiðsögurit með ýmsum fróðleik úr byggðum landsins, síðust þeirra bóka var Landnámssögur við þjóðveginn, sem kom út fyrr á þessu ári. Þá var Jón með Þórði Tómassyni, safnverði í Skógum, um langt árabil ritstjóri og útgefandi Goðasteins, héraðsrits Rangæinga. Einnig ritstýrði Jón Rotary Norden af Íslands hálfu. Jón hlaut riddarakross hinnar íslensku fálkaorðu árið 1983 og var sæmdur Paul Harris Fellow-orðu Rotaryhreyfingarinnar 1986 og 1996.

Hann kvæntist Guðrúnu Ó. Hjörleifsdóttur 25. september 1954 og börn þeirra eru Halldóra, Hjálmar Andrés, Hjörleifur Rafn, Oddný Sigurrós og Guðrún Helga. Barnabörn hans eru níu talsins og eitt langafabarn.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert