Andlát: Víglundur Þorsteinsson, fv. forstjóri BM Vallár

Víglundur Þorsteinsson.
Víglundur Þorsteinsson.

Víglundur Þorsteinsson, lögfræðingur og fyrrverandi forstjóri BM Vallár hf., lést á líknardeild Landspítalans í fyrrinótt. Hann var 75 ára að aldri. Víglundur var lengi forystumaður í samtökum vinnuveitenda.

Víglundur var fæddur í Reykjavík 19. september 1943. Foreldrar hans voru Þorsteinn Þorsteinsson fisksali og Ásdís Eyjólfsdóttir, fulltrúi á Skattstofu Reykjavíkur.

Hann lauk lögfræðiprófi frá Háskóla Íslands vorið 1970. Var fulltrúi hjá ríkissaksóknara þá um sumarið og síðan framkvæmdastjóri fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík til hausts 1971. Eftir það var hann framkvæmdastjóri og síðar stjórnarformaður BM Vallár hf. til ársins 2010.

Víglundur var bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins á Seltjarnarnesi í eitt kjörtímabil. Hann var virkur í samtökum vinnuveitenda. Var í stjórn Félags íslenskra iðnrekenda í þrettán ár, árin 1978 til 1991, þar af formaður félagsins í níu ár. Hann var í stjórn Verslunarráðs Íslands, formaður stjórnar Útflutningsmiðstöðvar iðnaðarins og í framkvæmdastjórn Vinnuveitendasambands Íslands í fjórtán ár, árin 1984 til 1998, þar af eitt ár varaformaður. Þá átti hann sæti í stjórn Lífeyrissjóðs verslunarmanna í mörg ár og í stjórnum nokkurra atvinnufyrirtækja, meðal annars Íslandsbanka og Eimskips. Hann var varaformaður stjórnar Eimskips síðustu árin.

Eftirlifandi eiginkona Víglundar er Kristín María Thorarensen, skrifstofumaður. Fyrri kona hans er Sigurveig Ingibjörg Jónsdóttir fréttamaður. Synir Víglundar og Sigurveigar eru Jón Þór, Þorsteinn og Björn. Börn Kristínar, stjúpbörn Víglundar, eru Axel Örn Ársælsson og Ásdís María Thorarensen.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert