Aurskriða lokar vegi á Akureyri

Iðnaðarsafnið á Akureyri.
Iðnaðarsafnið á Akureyri. Ljósmynd/Aðsend

Lítil aurskriða féll í gærkvöldi á og yfir hitaveituveginn og hitaveitulögnina, sem liggur til suðurs frá Miðhúsabraut, ofan við gróðrarstöðina og Háteig á Akureyri, samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Akureyri.

Vegurinn er sem stendur lokaður og verður það þangað til hægt verður að ryðja hann í birtingu og skemmdir kannaðar.

Á Facebook-síðu lögreglunnar kemur fram að starfsmenn Norðurorku hafi komið á svæðið og gert viðeigandi ráðstafanir í gærkvöldi en fólk er beðið um að vera ekki á ferðinni þarna að nauðsynjalausu. 

Niðurföll vestan við Mótorhjólasafnið og við Iðnaðarsafnið stífluðust í gærkvöldi við aurinn sem kom niður lækjarfarveginn og myndaðist allnokkur tjörn, sérstaklega við Iðnaðarsafnið.

Starfsmenn framkvæmdamiðstöðvar Akureyrarbæjar losuðu stífluna í niðurföllunum og er ástand á svæðinu orðið gott. Reiknað er með að dragi úr rigningunni í dag. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert