Heitt vatn rann í Flókadalsá eftir bilun

Veitt í Flókadalsá. Mynd úr safni.
Veitt í Flókadalsá. Mynd úr safni. mbl.is/Golli

Á ellefta tímanum í morgun varð bilun á Deildartunguæð rétt austan við Flókadalsá í Borgarfirði. Hitaveitulögnin flytur heitt vatn úr Deildartungu til Akraness og Borgarbyggðar. Í tilkynningu frá Orkuveitunni segir að lokað hafi verið fyrir vatnsrennslið um leið og bilunin uppgötvaðist og viðgerð stendur nú yfir.

Truflun verður á afhendingu á heitu vatni til nokkurra bæja í Borgarbyggð vegna þessa en heitavatnsleysi á Akranesi, sem tilkynnt var um í morgun, er vegna óskylds viðhalds. Talsvert vatn úr æðinni rann í Flókadalsá og því hefur eftirlitsaðilum og viðkomandi veiðifélagi verið tilkynnt um atburðinn.

Æðin er 62 kílómetra löng milli Deildartungu og Akraness en séu lagnir til Hvanneyrar, Borgarness og Bæjarsveitar taldar með nær lengd hennar 75 kílómetrum. Búið er að endurnýja meira en helminginn en bilunin í morgun varð á óendurnýjuðum hluta lagnarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert