Landsréttur stytti farbannið

Landsréttur.
Landsréttur. mbl.is/Hjörtur

Landsréttur hefur staðfest úrskurð Héraðsdóms Norðurlands eystra um að tveir menn skuli sæta farbanni að kröfu lögreglunnar á Norðurlandi eystra.

Mennirnir eru starfsmenn PCC á Bakka við Húsavík og eru grunaðir um líkamsárás hvor gegn öðrum í vistarverum PCC.

Héraðsdómur úrskurðaði mennina í þriggja mánaða farbann, eða allt til 1. febrúar en Landsréttur stytti farbannið og bannaði þeim för frá Íslandi allt til mánudagsins 17. desember.

Úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra var kærður til Landsréttar 6. nóvember. Þar kemur fram að annar maðurinn (varnaraðili í málinu) hafi kvartað til verkstjóra yfir framkomu hins mannsins. Þrátt fyrir það batnaði framkoma hans ekki. Eftir að hafa setið við drykkju slógust þeir en átök þeirra voru stöðvuð. Maðurinn sem kvartaði við verkstjórann fór þá að sofa en um 20-30 mínútum síðar segir hann hinn manninn hafa laumast inn í herbergi hans, sest ofan á hann og barið ítrekað með hnefum. Skömmu síðar tók hann lítið túbusjónvarp sem var í herberginu og barði varnaraðila 6 til 7 sinnum í andlit og höfuð af miklu afli.

Eftir að þeir höfðu fallið af rúminu tók varnaraðili fót af rúminu til að reka hinn manninn út og sveiflaði hann höndunum. Staðhæfði hann að hann hafi verið að berjast fyrir lífi sínu.

Hinn maðurinn lýsti því sem gerðist eitthvað á annan veg en aðallega kveðst hann ekkert muna eftir því sem gerðist.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert