Hafa áhyggjur af heróínneyslu hér

Tilefni er til að hafa áhyggjur af fíkniefnaneyslu hér á …
Tilefni er til að hafa áhyggjur af fíkniefnaneyslu hér á landi. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Það er farið líta á margt sem eðlilegt í tengslum við þessa auknu neyslu og tilefni til að hafa ákveðnar áhyggjur,“ segir Karl Steinar Valsson yfirlögregluþjónn.

Fréttir af aukinni hörku handrukkara í fíkniefnaheiminum og fjölgun dauðsfalla meðal ungs fólks í neyslu hafa vakið athygli síðustu daga. Morgunblaðið greindi frá því í gær að það sem af væri ári hefðu fleiri látist í aldurshópnum undir 39 ára heldur en allt árið í fyrra. Dauðsföllum í þessum aldurshópi meðal fólks sem komið hefur í meðferð hjá SÁÁ hefur fjölgað hratt síðustu þrjú ár.

Karl Steinar segir í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag, að í tölum lögreglunnar sjáist ekki merki um sérstaka fjölgun sjálfsvíga. „Við höfum ekki séð núna aukningu í tölum hjá okkur, þetta er af svipuðum toga og verið hefur. Við sjáum heldur ekki þessi kveðjubréf vegna ótta við skuldir við handrukkara. Þessi veruleiki kemur ekki til okkar. Það kann hins vegar að vera að þessi mál skili sér ekki til okkar, við getum ekki útilokað það,“ segir hann en ítrekar að lögreglan fylgist vel með áhættuþáttum og hvaða þróun sé í gangi.

Karl Steinar segir hins vegar að ástæða sé til að vera á varðbergi hvað varðar þróun fíkniefnaneyslu hér á landi. „Undanfarið hefur verið aukning á aðgengi að lyfjum til dæmis. Þróunin í Bandaríkjunum hefur verið að samhliða því er skrefið tekið yfir í heróín meðal annars. Það er eitthvað sem við höfum ekki séð en aðrar Evrópuþjóðir telja áhyggjuefni og maður hlýtur að spyrja sig hvort ástæða sé fyrir okkur að hafa áhyggjur af. Hingað til höfum við ekki talið að ástæða sé til að hafa áhyggjur af heróínneyslu, enda hefur umhverfið ekki verið til staðar og ekki verið kominn neytendahópur. En þegar kominn er svona hópur eins og við sjáum í dag þá er í raun verið að búa til þennan grunn. Við höfum því áhyggjur og deilum nú áhyggjum annarra Evrópuþjóða í því. Það eru merki um stóraukna heróínframleiðslu í Afganistan og fleiri löndum sem hafa sérhæft sig í því. Við stöndum að ég held frammi fyrir talsverðum áskorunum á þessu sviði.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert