Kostnaðaráætlanir standist að jafnaði vel

Frávikin í einstökum verkum Vegagerðarinnar eru allt frá 70% til …
Frávikin í einstökum verkum Vegagerðarinnar eru allt frá 70% til 145% af kostnaðaráætlun. Ljósmynd/Vegagerðin

Að jafnaði hafa stór verk Vegagerðarinnar undanfarinn áratug aðeins farið 7 prósent fram úr kostnaðaráætlun hefðbundinna verkefna í vegagerð. Í jarðgangaverkum er kostnaðurinn tæp 109 prósent af kostnaðaráætlun að meðaltali.

Vegagerðin segir, að áætlanir standist því að jafnaði nokkuð vel og fari einungis 7-9 prósent yfir áætlun, oft af eðlilegum ástæðum er snúi að óhjákvæmilegri óvissu. 

Í frétt sem er að finna á vef Vegagerðarinnar er birt yfirlit yfir 23 verk sem hafi verið unnin á síðustu tíu árum eða svo, hver verkin séu, hver kostnaðaráætlunin hafi verið fyrir útboð, hver kostnaðurinn í raun varð, hlutfallið þar á milli og síðan hvenær verkin voru unnin. Einnig sést í töflunni að ef krónutala verkefna í vegagerð er lögð saman skeiki í heild einungis þremur prósentum, en heldur meira í jarðgangaverkefnum eða um 10 prósentum.

„Mikil umræða hefur verið í þjóðfélaginu um framúrkeyrslu kostnaðar í  opinberum framkvæmdum.  Eðli málsins samkvæmt kemur það illa við bæði stjórnvöld og almenning þegar fyrirsjáanleiki virðist ekki vera til staðar við kostnaðaráætlanir stórra og fjárfrekra framkvæmda.

Frávikin í einstökum verkum Vegagerðarinnar eru allt frá 70% til 145% af kostnaðaráætlun. Á tímabilinu reyndust 7 verk undir áætlun og 16 verk yfir áætlun og flest verkin voru innan við 10% yfir áætlun. Þetta verður að teljast nokkuð góður árangur,“ segir Vegagerðin. 

Hún bendir einnig á að óvissan sem tekist sé á við í vega- og gangagerð snúi mjög oft að jarðfræðinni og öryggi þeirra upplýsinga sem hægt sé að afla um áhrif þeirra þátta á verkferilinn. Sama eigi við varðandi verkefni siglingasviðs Vegagerðarinnar.

Þá hafi almenn staða á markaði vissulega einnig áhrif á það hvernig tilboð berast við útboðum, s.s. samkeppni milli verktaka, framboð verkefna og almennt efnahagsástand og stöðugleiki eða óvissa á þeim vettvangi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert