Hika ekki við að svíkja gefin loforð

Drífa Snædal, forseti ASÍ.
Drífa Snædal, forseti ASÍ. mbl.is/Valli

Í vikunni varð ljóst að stjórnvöld ætla ekki að eiga frumkvæði að því að jafna kjörin og beita skatt- og bótakerfinu til jöfnuðar. Slíkar breytingar þarf greinilega að sækja fast og eru það vonbrigði.“ Þannig hefst pistill Drífu Snædal, forstjóra ASÍ.

Enn fremur segir Drífa að nefndarálit meirihluta fjárlaganefndar sýni að stjórnvöld hafi lítinn skilning á þeim risa verkefnum sem bíði okkar og hiki ekki við að svíkja gefin loforð.

Má þar nefna loforð um 4 miljarða aukningu í málefni öryrkja og fatlaðs fólks sem hefur verið mikið í umræðunni en auk þess lítur út fyrir að meirihluti fjárlaganefndar ætli beinlínis að brjóta samning um framlög til VIRK og munar þar 73 milljónum króna,“ skrifar Drífa.

Hún skrifar að samkvæmt samningi eigi framlag ríkisins til VIRK - Starfsendurhæfingarsjóðs að nema 0,05% af gjaldstofni tryggingagjalds sem þýðir 821,5 milljónir króna. „Samkvæmt fjárlagafrumvarpinu verður upphæðin 739,5 milljónir. Þrátt fyrir ábendingar hefur þessi upphæð ekki verið löguð í meðförum fjárlaganefndar.

Verkalýðshreyfingin þarf að vera háværari

Kjarasamningar rúmlega helmings starfandi fólks á íslenskum vinnumarkaði renna út um áramótin og Drífa segir að til að samningar náist þurfi sterka aðkomu ríkisins í skatta- og bótakerfum, húsnæðismálum og baráttunni gegn brotastarfsemi á vinnumarkaði.

Þessar áherslur er verkalýðshreyfingin sammála um og hafa legið fyrir lengi. Stjórnvöld hafa líka verið upplýst um áherslurnar enda blasir vandinn við þeim sem vilja sjá hann. Engu að síður ákveða stjórnvöld að sýna enga tilburði í þessa átt við vinnslu fjárlaga eins og þessi úrlausnarefni komi þeim lítið við. Það er ljóst að verkalýðshreyfingin þarf að vera háværari og reisa skýrari kröfur til að ná fram nauðsynlegum samfélagsbreytingum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert