Styttist í sviðslistafrumvarpið

Sviðsverk í gangi í Þjóðleikhúsinu.
Sviðsverk í gangi í Þjóðleikhúsinu. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, vonast til að geta lagt frumvarp til laga um sviðslistir fram í desember eða janúar næstkomandi. Það ræðst af því hvernig gengur að ljúka vinnu við frumvarpið.

Opið samráð í Samráðsgátt stjórnvalda um drög að frumvarpi til sviðslistalaga, sem hófst 31. október, hefur verið framlengt til 27. nóvember. Í frétt ráðuneytisins um frumvarpið segir að í ljós hafi komið að samráðsaðilar séu að læra á breytt verklag sem nú sé fylgt í samráði stjórnvalda við hagsmunaaðila og almenning.

„Við tókum upp ný vinnubrögð við þetta frumvarp,“ sagði Lilja í samtali við Morgunblaðið. „Fyrst kom áformaskjal og við brugðumst við athugasemdum við það. Svo óskuðum við eftir frekara samráði um frumvarpsdrögin í gegnum Samráðsgáttina. Ég hef beðið starfsfólk ráðuneytisins að fara yfir allar athugasemdir sem borist hafa. Ég hef líka beðið fólkið mitt að tala við þau sem hafa gert athugasemdir við frumvarpsdrögin og komast að því hvað fólki þykir efnislega að frumvarpsdrögunum.“

Hún sagði að haldinn hefði verið fundur með forystufólki á sviði sviðslista í janúar þar sem vinnan við frumvarpið var kynnt. „Það komu athugasemdir eftir þann fund sem teknar voru til greina við samningu frumvarpsins. Ég er ekki viss um að það vanti mikið efnislega upp á frumvarpsdrögin. Ég er nokkuð vongóð um að við fáum mjög góð lög um sviðslistir,“ sagði Lilja. Hún sagði að óskir hefðu borist um að fresturinn til að skila umsögnum í Samráðsgáttinni yrði lengdur og orðið hefði verið við því.

Lilja minnti á að frumvarpið væri búið að vera lengi í smíðum og aðrir ráðherrar hefðu komið að því á fyrri stigum.

Bjóða fram hjálp sína

Í frétt ráðuneytisins kemur fram að unnið hafi verið að gerð frumvarps um sviðslistir í nær fimm ár. Samráðsferli um frumvarpsdrögin hafi byrjað í janúar þegar boðað var til kynningarfundar um málið, helstu hagsmunaaðilum kynnt frumvarpsdrögin og þeir hvattir til að koma skriflegum athugasemdum til ráðuneytisins.

Sex umsagnir höfðu borist um frumvarpsdrögin í gær, þar á meðal ályktun frá opnum fundi í Sviðslistasambandi Íslands (SSÍ) 12. nóvember þar sem drögunum var einróma hafnað. Jafnframt lýsti fundurinn furðu sinni á því að ráðuneytið skyldi ekki hafa átt samráð við fagfólk og hagsmunaaðila við gerð frumvarpsdraganna. Undir ályktunina rituðu 23 einstaklingar sem allir gegna eða hafa gegnt forystuhlutverkum á sviði sviðslista á Íslandi. Sviðslistasambandið hét áður Leiklistarsamband Íslands.

„Hópurinn sem ályktaði á fundinum er í samtali. Við höfum boðið fram krafta okkar og boðist til að hjálpa við gerð nýrra frumvarpsdraga. Það er hugur í fólki og mikil eining innan þessa hóps sem ályktaði á fundi Sviðslistasambandsins,“ sagði Birna Hafstein, forseti SSÍ. Henni þótti vinnan við frumvarpsdrögin hafa verið sérkennileg. „Frumvarpsdrögin endurspegla gamaldags hugsun um uppbyggingu stofnana. Það er tekin upp einveldisstefna og ég á eftir að sjá það gerast að ráðherrann leggi frumvarpið fram svona. Mér þykir það mjög ólíklegt.“

Birna sagði að sér þætti verst að ekki hefði verið haft samráð við fagaðila með sérþekkingu á sviðslistum, við gerð frumvarps til jafn mikilvægra laga og þessara. Hún kvaðst hafa verið einu sinni boðuð á kynningarfund, 17. janúar, ásamt fulltrúa Bandalags íslenskra listamanna, þjóðleikhússtjóra, listdansstjóra og óperustjóra.

„Þetta var stuttur kynningarfundur. Við fengum ekki drögin send fyrir fundinn en var sagt hvar þau væru stödd. Svo fengum við ekki að taka drögin með okkur. Þetta var ekki byrjun á samráðsferli eins og við höfðum haldið,“ sagði Birna. Hún sagði að síðan hefði ekki verið óskað eftir samráði fyrr en drögin voru birt í Samráðsgáttinni.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert