Jörðin opnaðist á gamla Vaðlaheiðarvegi

Holan slagar í meter í þvermál og er hyldjúp, eins …
Holan slagar í meter í þvermál og er hyldjúp, eins og sést. Í bakgrunni er Akureyri. Ef lagt er á veginn í myrkri er útilokað að verða var við holuna Ljósmynd/Hjörleifur Árnason

Það er gríðarstór hola í gamla Vaðlaheiðarveginum við Akureyri. Jörðin opnast á veginum með þeim hætti að keyri þar ofan í bíll, á hann í hættu að stórskemmast. Þetta getur skapað hættu fyrir skotveiðimenn sem leggja á veginn í myrkri.

„Þetta er bara eins og þegar kemur gat í jörðina í Mexíkó eða eitthvað,“ segir Hjörleifur Árnason jarðareigandi í Vaðlaheiði, sem var gáttaður af umfangi holunnar. Hann varaði skotveiðimenn við þessu inn á Facebook-hópnum Skotveiðispjallið.

Í samtali við mbl.is segir Hjörleifur holuna í það minnsta 1,5 meter á dýpt og að hún slagi í meter í þvermál. Hún er því býsna stór. Hjörleifur segir jafnframt að undir veginum renni lækur og því sé rör undir honum sennilega farið að ryðga.

„Þannig að holan á örugglega bara eftir að stækka og stækka,“ segir hann. Hann segir að holan geti ekki verið mikið meiri en tveggja daga gömul. Hún sé nýleg.

Facebook ber meiri árangur en erindi við Vegagerðina

Mest veiðimenn og ferðafólk eiga leið um þennan hluta vegarins. Þó er þetta það snemma á veginum, að þó að heiðinni sé lokað, þá er þessi spotti enn opinn. Það mætti því vel huga að því að laga þetta.

Hjörleifur er ekki vongóður um viðbrögð frá Vegagerðinni. „Ég er nú sjálfur búinn að vera að eiga við Vegagerðina í hálft ár þannig að ég þekki til þar. Ég býst ekki við miklu frá þeim,“ segir hann. Hann sá fram á að betri raun gæfi, að tilkynna um þetta beint á þessum hópi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert