Logar enn á Hvaleyrarbraut

Mikill eldur var í húsinu. Búið er að hreinsa efri …
Mikill eldur var í húsinu. Búið er að hreinsa efri hæðina burt, en enn logar í smá rými á neðri hæðinni. mbl.is/Kristinn Magnússon

Enn logar í húsnæði við Hvaleyrarbraut 39 í Hafnarfirði þar sem mikill eldur kom upp í gærkvöldi. Að sögn varðstjóra slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu logar eldur í rými á neðri hæð hússins, þar sem bílaverktstæði er til húsa. Ekki er talin hætta á að hann breiði frekar úr sér og telja menn sig hægt og rólega vera að ná niðurlögum eldsins.

Húsið er verulega illa farið eftir brunann og búið að hreinsa burt efri hæðina. „Það er búið að slétta hana við gólf til að forða foktjóni,“ segir varðstjóri. Mikið hvassviðri var þegar eldurinn kviknaði og voru aðstæður til slökkvistarfa erfiðar. Það dró þó úr vindi um tíma í nótt,  en er nú farið er að bæta í vind á ný og á að bæta enn frekar í er líður á daginn.

Erfitt er að komast að þeim eldi sem enn logar vegna hrunhættu. „Það er verið að reyna að gægjast í rólegheitum með öryggið á oddinum,“ segir varðstjóri, en húsið er að hans sögn gríðarlega mikið brunnið og stoðvirkið því orðið veikt. 

Til­kynn­ing um elds­voða í húsnæði glugga- og hurðasmiðju SB barst kl. 22:12 í gærkvöld. Fjöl­mennt lið slökkviliðsmanna fór strax á staðinn og voru um 60 manns á vett­vangi og fjór­ir dælu­bíl­ar á staðnum um eittleytið í nótt. Um  sjöleytið í morgun voru 16 slökkviliðsmenn enn á staðnum.

Krabb­i var fenginn frá Furu í nótt til aðstoðar við að flytja báru­járn og aðra laus­lega muni frá hús­inu til að auðvelda mönn­um að at­hafna sig á svæðinu. Lík­legt þykir að allt húsið sé ónýtt og að allt sem brunnið gat hafi orðið eld­in­um að bráð, en mik­ill elds­mat­ur var í hús­inu, m.a. timb­ur og máln­ing­ar­vör­ur.  

Gert er ráð fyrir að aðgerðum ljúki með morgninum, en slökkvilið verður þó væntanlega með vakt á staðnum fram eftir degi, áður en svæðið verður afhent lögreglu.

Eldsupptök eru enn óljós og mun rannsóknar- og tæknideild lögreglu á höfuðborgarsvæðinu rannsaka vettvang.

Lík­legt þykir að allt húsið sé ónýtt og að allt …
Lík­legt þykir að allt húsið sé ónýtt og að allt sem brunnið gat hafi orðið eld­in­um að bráð. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert