Það var nánast ekkert eftir

Enn er unnið að því að slökkva eldinn.
Enn er unnið að því að slökkva eldinn. mbl.is/​Hari

„Við höfðum miklar áhyggjur af eldinum. Sem betur fer þá stóð vindurinn í rétta átt, út á sjó,“ segir Helga Guðmundsdóttir eigandi Crossfit Hafnarfjarðar  sem er í næsta húsi við Hvaleyrarbraut 39 sem brann í nótt.

Eldur logaði í húsinu í alla nótt og var enn unnið að slökkvistarfi um tíuleytið í morgun, þó ekki sé talin hætta á að eldurinn breiði frekar úr sér. Ljóst er að miklar skemmdir hafa orðið á húsinu sem kann að vera gjörónýtt.

Helga segist hafa farið út eftir í gær til að líta á aðstæður og þá hafi allt verið í gangi. „Ég sá að húsið við hliðina á var næstum farið, það var nánast ekkert eftir af því.“

Hjá henni hafi hins vegar allt virst vera í lagi. „Í gær var smá vatn komið inn,“ segir hún. „Það hafði aðallega gerst þegar slökkviliðið var að verja húsið.“ Hún hafi því bara þurrkað upp vatnið og farið svo.

Slökkviliðsmenn að störfum við Hvaleyrarbraut 39 í nótt. Enn logar …
Slökkviliðsmenn að störfum við Hvaleyrarbraut 39 í nótt. Enn logar í húsinu og er engum hleypt inn á svæðið. mbl.is/Kristinn Magnússon

Engum hleypt inn á svæðið

Þjálfari frá henni fór síðan á staðinn í morgun og þá var mikill reykur yfir öllu nágrenni brunasvæðisins, en honum var ekki hleypt þangað inn. „Það er engum hleypt nálægt og ég er búin að fella niður allar æfingar,“ segir Helga. Mbl.is hafði eftir lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu nú í morgun að svæðinu í kring­um hús­ið sem brann hafi verið lokað og að lok­un­in muni að minnsta kosti standa yfir þar til slökkviliðið hef­ur ráðið niður­lög­um elds­ins. 

Til­kynn­ing um elds­voða í hús­næði glugga- og hurðasmiðju SB barst kl. 22:12 í gær­kvöld. Fjöl­mennt lið slökkviliðsmanna fór strax á staðinn og voru um 60 manns á vett­vangi og fjór­ir dælu­bíl­ar á staðnum um eitt­leytið í nótt. Um  sjöleytið í morg­un voru 16 slökkviliðsmenn enn á staðnum.

Ljóst er að tjónið er gífurlegt.
Ljóst er að tjónið er gífurlegt. mbl.is/​Hari

Boðnir og búnir að koma og hjálpa

Helga kveðst ætla á staðinn og skoða aðstæður þegar opnað verður inn á svæðið, en þangað til voni hún bara það besta. „Síðan eru þeir sem eru að æfa hjá mér búnir að vera mjög almennilegir og hafa verið að bjóðast til að koma og hjálpa ef þarf að gera eitthvað, ef það t.d. er vatnstjón,“  segir hún. Hún hafi fengið nokkur skilaboð frá fólki sem sé boðið og búið að hjálpa.

Helga ræddi í gær slökkviliðsmenn sem hún þekkir og þeir sögðu henni að hún gæti mögulega orðið fyrir einhverju vatnstjóni, sem og að rafamagn gæti farið af vegna þessa. „En það hlýtur að vera hægt að laga það,“ segir hún. Tækin sem notuð eru við æfingar eru að mestu stangir þannig að hún segir ekki mikið af slíkum búnaði sem geti skemmst. „Við erum hins vegar með viðarklædda veggi þannig að það hefði verið slæmt ef kviknað hefði í.“

Crossfit stöðin verður lokuð í dag. „Síðan verðum við bara að kanna aðstæður og sjá til hvernig þetta er með reykinn,“ segir hún.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert