„Þetta er allt ævistarfið“

Harðviðarverkstæði Jónasar er rjúkandi rúst.
Harðviðarverkstæði Jónasar er rjúkandi rúst. mbl.is/​Hari

„Þetta er bara skelfilegt. Annað skipti sem brennur hjá mér, allt til kaldra kola,“ segir Jónas Sigurðsson, eigandi og framkvæmdastjóri SB Glugga, í samtali við mbl.is.

Hann er að vonum miður sín eftir brunann í nótt. Húsnæði þessa sama fyrirtækis brann fyrir 22 árum, árið 1996. Jónas er því að upplifa þetta í annað sinn.

Harðviðarverkstæði hans í Hafnarfirði er brunnið til grunna. „Þetta er allt ævistarfið. Ég hef unnið við þetta síðan ég var 16 ára,“ segir Jónas. Hann segir þó aðalatriði að enginn hafi meiðst eða þaðan af verra.

Enn hefur ekki tekist að ráða niðurlögum eldsins að fullu:

Um upptök eldsins er enn allt óvíst. Um er að ræða stóran harðviðarlager sem er í raun eldsmatur eins og hann leggur sig. Að auki eru svona verkstæði eldfim vegna fíns viðarryks sem leggst yfir rýmið.

Ekkert að gera nema að horfa á þetta brenna

„Við hættum klukkan 12:45 á föstudögum. Ég leit svo aftur við um fjögurleytið að skila einhverju dóti. Þá var ekki að sjá að ekki væri allt með felldu,“ segir Jónas. Hann segir að hann hefði fundið lykt eða séð eitthvað ef eitthvað hefði verið byrjað um það leyti.

„Svo var bara hringt í mig korter í ellefu. Og þá var þetta vonlaust frá upphafi. Ég var þarna fram yfir miðnætti, en það var ekkert að gera nema bara horfa á allt brenna,“ segir Jónas. Þetta er hans ævistarf. Fyrirtækið var stofnað árið 1973.

„Næstu skref verða bara fundir með tryggingafélögunum. Það verður bara að skoða hvað verður gert,“ segir Jónas spurður um hvað taki við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert