Vara við hviðum upp í 35 metra

Veðurútlit á hádegi í dag, laugardag.
Veðurútlit á hádegi í dag, laugardag.

Tekið er að bæta í vind á ný suðvestan- og vestanlands og má reikna með hviðum allt að 35 m/s fram á miðjan dag  til að mynda utan til á Kjalarnesi, í Hvalfirði, undir Hafnarfjalli og við Borgarnes, að því er fram kemur á vef Vegagerðarinnar, einnig bá búast við sterkum hviðum á norðanverðu Snæfellsnesi og austur við Hvamm undir Eyjafjöllum.   

Suðaustanhvassviðri, 15-23 m/s, og vatnsveður verður á landinu á sunnan- og vestanverðu í dag. Gul viðvörun er í gildi fyrir Breiðafjarðarsvæðið. 

Sums staðar verður staðbundinn stormur og má því búast við vatnavöxtum í ám og lækjum á þeim svæðum. Vætuminna verður þó um tíma seinni partinn.

Heldur hægara og úrkomulítið verður fyrir norðan. Það dregur smám saman úr vindi og rigningu á morgun og verður þá sunnan- og suðaustanátt 8-13 m/s og rigning með köflum annað kvöld, en birtir til á Norður og Austurlandi. Hiti verður víða 7 til 12 stig.

Veðurstofan bendir fólki á að hreinsa frá niðurföllum og þakrennum svo regnvatnið eigi greiða leið burt. Vatnsborð í ám og lækjum mun einnig hækka og getur vindur og regnið valdið varasömum akstursskilyrðum og er fólki því bent á að aka varlega.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert