Gömlu Hringbraut lokað í janúar

Meðferðarkjarninn rís fyrir framan aðalbyggingu spítalans og mun liggja yfir …
Meðferðarkjarninn rís fyrir framan aðalbyggingu spítalans og mun liggja yfir gömlu Hringbraut. Mynd/NLSH

Stefnt er að lokun gömlu Hringbrautarinnar 7. janúar 2019. Þetta kemur fram í nýjum Framkvæmdafréttum Hringbrautarverkefnis Nýs Landspítala ohf. (NLSH).

Eins og fram hefur komið í fréttum mun lokunin hafa í för með sér miklar breytingar á umferð og samgöngum á Landspítalalóðinni, meðal annars á leiðakerfi Strætó bs. Lokun gömlu Hringbrautar markar upphaf á jarðvinnu fyrir meðferðarkjarnann.

Stærsta bygging nýs spítala

Meðferðarkjarninn verður stærsta bygging nýs Landspítala, alls um 66 þúsund fermetrar. Hann verður sunnan við Barnaspítalann, framan við aðalbygginguna, og mun ná yfir gömlu Hringbrautina. Íslenskir aðalverktakar sjá um jarðvinnu vegna meðferðarkjarnans. Fyrirtækið átti lægsta tilboð í verkið, eða 2,8 milljarða króna.

Reykjavíkurborg samþykkti byggingarleyfi fyrir meðferðarkjarnann í síðasta mánuði.

Framkvæmdir standa nú yfir við lagnaskurð sunnan Barnaspítalans. Fljótlega verður byrjað á þverun Laufásvegar niður við gömlu Hringbraut. Áætlað er að sá verkþáttur taki um fimm vikur og á meðan verður Laufásvegur lokaður fyrir umferð, milli gömlu Hringbrautar og Barónsstígs. Gert er ráð fyrir að búið verði að fylla aftur í skurðinn frá Laufásvegi að aðalanddyri Barnaspítalans um miðjan desember 2018, að því er fram kemur í Framkvæmdafréttum NLSH.

Mikið hefur þurft að sprengja vegna lagnaskurðarins. Einungis hefur verið leyfilegt að sprengja þrisvar sinnum yfir daginn, kl. 11.00, 14.30 og 17.30.

Áætlað er að byrja á jarðvinnu fyrir tengigang frá aðalinngangi Barnaspítala í síðustu viku nóvember 2018. Uppsteypa, fylling og malbikun á því svæði mun standa fram til lok janúar 2019. Á sama tíma verður unnið við stóra lagnaskurðinn og götustæði Efri götu frá tengiganginum til austurs framhjá kvennadeild og svo enn lengra í austur framhjá gamla spítalanum.

Áætlað er að vinna við inngarð við Barnaspítala hefjist um miðjan desember 2018 og að þeirri vinnu ljúki í lok janúar 2019.

Komið hefur í ljós að sú aðgerð er öllu viðameiri en upphaflega var áætlað, segir í Framkvæmdafréttum NLSH.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert